Hagnýtar upplýsingar

Ef upp koma spurningar eða vandamál af einhverju tagi er gott að vita hvert er hægt að leita og hverjir geta komið til aðstoðar. Smellið hér til að skoða nánar

Svefn

Mikilvægt er að nemendur fái nægan svefn og hvíld. Séu þau ekki útsofin og hvíld geta þau ekki notið kennslunnar né sinnt því starfi sem fer fram í skólanum. Þau verða pirruð og þreytt og námsefni fer fyrir ofan garð og neðan. 

Hæfilegur svefntími er talinn:

  • Fyrir 5 – 8 ára börn 10 -12 klst. á sólarhring
  • Fyrir 9 – 12 ára börn 10 – 11 klst. á sólarhring
  • Fyrir 13 – 15 ára börn 9 – 11 klst. á sólarhring

Skápar fyrir nemendur

Nemendur í 8. – 10. bekk hafa kost á að fá nemendaskáp leigðan frá skólabyrjun til skólaloka.  Leigan er kr. 1000.  Skili nemandi skápnum í góðu ásigkomulagi á réttum tíma fær hann kr. 1000 endurgreiddar.  Nemandinn útvegar sjálfur lás til að læsa sínum skáp.  Skápnum er ekki úthlutað nema með samþykki og undirskrift forráðamanns.  Gerist nemandi brotlegur varðandi notkun og umgengni um nemendaskáp missi hann sinn skáp og jafnvel rétt til að fá nemendaskáp í framtíðinni, auk þess sem hann fyrirgerir rétti sínum til endurgreiðslu.  

Notkun reiðhjóla, hlaupahjóla, hjólabretta og línuskauta

 Skólinn ber ekki ábyrgð á hjólum og hlaupahjólum sem nemendur koma á í skólann. Öll mál sem tengjast skemmdum á reiðhjólum/ hlaupahjólum verða foreldrar að gera upp sín í milli. Ekki er heimilt að geyma hjól/ hlaupahjól inni í skólanum.  Öll notkun á þessum tækjum er bönnuð í frímínútum.Óheimilt er að mæta á línuskautum, hjólabrettum og rúlluskóm í skólann. 

Óskilamunir

Í skólanum er mikið af óskilamunum, þar á meðal vandaðar og óslitnar flíkur af yngri jafnt sem eldri nemendum. Ef fatnaður eða aðrar eigur nemenda skila sér ekki heim geta foreldrar komið og fengið að skoða óskilamuni.  Mikilvægt er að merkja allar flíkur nemenda, skófatnað jafnt sem annað.

Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is