Skólinn

Vinátta - samvinna - ábyrgð

Hraunvallaskóli hefur þá sérstöðu að innan veggja hans er rekinn bæði leik- og grunnskóli. Í raun má segja að nemendur hefji skólagöngu sína átján mánaða í Hraunvallaskóla og ljúki henni við sextán ára aldur. Grunnskólinn  tók til starfa haustið 2005 í bráðabirgðahúsnæði að Ásvöllum í Hafnarfirði. Þá voru um 90 nemendur í 1. – 4. bekk og 14 starfsmenn í skólanum.

Haustið 2006 var fyrsti áfangi skólabyggingarinnar tilbúinn að Drekavöllum 9 og fluttist starfsemin þangað. Nemendum hafði fjölgað töluvert og voru þá orðnir um 260 í 1. – 7. bekk. Það sama ár hóf leikskólinn starfsemi sína með um 100 nemendur í fjórum deildum. Samhliða hófst samstarf milli skólastiganna sem hefur verið í stöðugri þróun síðan.  Í ágúst 2008 var þriðji og síðasti áfangi skólabyggingarinnar afhentur en þá voru skráðir um 480 nemendur í 1. – 9. bekk í grunnskólanum og starfsmenn þar komnir yfir 70.

Vorið 2010 var í fyrsta skipti útskrifaður 10. bekkur frá skólanum. Var það sögulegur áfangi í starfi skólans. Nemendafjöldi fer enn vaxandi en á núverandi skólaári eru nemendur rúmlega  750 og starfsmenn komnir yfir 90.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is