Drekasprettur

25.4.2017

 Lestrarátakið Drekasprettur hófst mánudaginn 24. apríl og stendur til mánudagsins 8. maí. Þá er ætlunin að taka góðan endasprett í lestri fyrir vorið, lesa enn meira en venjulega bæði heima og í skólanum. Helstu markmið lestrarátaksins eru; 

  •      að þjálfa lestur
  •  að auka almennan íslenskan orðforða
  •  að efla áhuga á lestri

Allur íslenskur texti er gjaldgengur í lestrarátakinu; sögubækur, teiknimyndasögur, dagblöð og tímarit.

Æskilegt er að nemendur lesi fjölbreytt efni og reyni að finna út hvers konar lesefni þeim líkar best. Þeir sem eldri eru, kennarar og forráðamenn, hafa það mikilvæga hlutverk að hjálpa til við að koma með hugmyndir, kynna mismunandi lesefni fyrir krökkunum og hvetja þá með ráðum og dáð.

Allur lestur, heima og í skólanum er skráður í Drekalestrarhefti í yngri- og miðdeild en egg eru skráð rafrænt í unglingadeild. Veglegur farandbikar er veittur í hverri deild ásamt rétti til að kalla sig Drekasprettsmeistara Yngri – mið – eða unglingadeildar 2017.

Eins og í fyrra teljum við lesnar mínútur en ekki blaðsíður. Í hvert sinn sem safnast hafa 60 mínútur fær nemandinn drekaegg í lit síns árgangs sem sett er í drekahreiður deildarinnar. Á eggið skráir nemandi nafnið sitt og það helsta sem lesið var.

Hver árgangur hefur sinn lit á eggjum til að auðveldara sé að fylgjast með hvernig keppni milli árganga miðar. Þegar ákveðnum fjölda eggja er náð er hengdur upp dreki í lit árgangsins. Þannig má auðveldlega fylgjast með hvernig keppninni miðar. Heildarmínútufjöldi skólans og heildarmínútufjöldi hvers árgangs verður birtur á heimasíðu skólans í lok átaksins auk þess sem allir fá viðurkenningarskjal. Á meðan drekasprettur varir leggjum við hefðbundið umbunarkerfi eins og stimpla og límmiða til hliðar en einbeitum okkur að því að ná sem flestum eggjum í drekahreiðrið 

Í unglingadeild skrá nemendur lesnar mínútur í app í ipad og geta þar fylgst með árangri síns bekkjar í samanburði við aðra. Mismunandi er hversu margar mínútur hvert egg kostar og fer það eftir fjölda nemenda í bekknum.

Tökum nú höndum saman og hvetjum krakkana okkar til dáða!

Með lestrarkveðjum, Linda, Guðbjörg og Rannveig

WP_20170216_09_12_23_Pro


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is