Foreldrabréf frá skólastjóra

28.8.2020

Kæru foreldrar/forsjáraðilar

Í ljósi aðstæðna er nauðsynlegt að takmarka alla umferð fullorðinna um skólann. Foreldrar/forsjáraðilar eru því vinsamlegast beðnir að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins eitt foreldri/forsjáraðili með nemanda. Það er mikilvægt að við hjálpumst að við að framfylgja þeim sóttvarnarreglum sem núna eru í gildi. Gætum að 2M reglunni og persónulegum sóttvarnaraðgerðum líkt og handþvotti og sprittun.

Skólinn hefur nú verið settur og nemendur glæða hann lífi á degi hverjum. Undirbúningur skólastarfs gekk vel á skipulagsdögum og er starfsfólk eftirvæntingarfullt að starfa með nemendum í vetur.

Komandi skólaár stunda um 690 nemendur nám við skólann. Fjöldi umsjónarbekkja er nú 32 og meðal bekkjarstærð er um 21 líkt og verið hefur síðastliðin ár. Fjórða árið í röð fækkar nemendum og er Hraunvallaskóli nú loksins að nálgast þær forsendur sem hann var byggður fyrir en við hönnun hans var gert ráð fyrir þremur bekkjum í hverju árgangi. Ef allt gengur eftir þá munum við innan þriggja ára vera kominn á þann stað að við getum hvatt lausar kennslustofur og öll notið þess að vera saman í aðalbyggingu skólans.

Velferð og hugarfar

Það er mikilvægt að foreldrar/forsjáraðilar komi á reglu og rútínu hjá börnum sínum þegar skólinn byrjar á ný. Hver nemandi þarf nægan svefn og góða næringu því nám og langur skóladagur krefst mikillar orku og þá er mikilvægt að vera úthvíldur. Eitt hefur ekki breyst í aldanna rás, en það er að hvert barn þarfnast ástar, hlýju og umhyggju. Ég hvet foreldra/forsjáraðila til að veita skólagöngu barna sinna athygli, spyrja hvað var skemmtilegast í dag o.s.frv. Hér er vænlegt að vera hvetjandi gagnvart lestri og námi almennt. Spyrjið með jákvæðni að leiðarljósi. Jákvætt hugarfar hefur jákvæð áhrif á nemendur.

Hlutverk foreldra/forsjáraðila er mikilvægt

Skólaforeldrar eru stór hluti af skólasamfélaginu. Við eigum gott samstarf við stjórn foreldrafélags skólans og væntum mikils af góðu samstarfi við alla forráðamenn. Viðhorf foreldra/forsjáraðila er mikilvægur stuðningur við nám og þroska nemenda skólans. Í Hraunvallaskóla væntum við árangurs af nemendum og starfsfólki. Því er hjálplegt að foreldrar/forsjáraðilar hvetji barnið til þess að sýna metnað, seiglu, sköpun, sjálfstæði og útsjónarsemi. Aðstoðið, leiðbeinið, hjálpið, léttið undir en umfram allt, verið til staðar.

Fjölgreinadeild Hraunvallaskóla

Núna í ágúst tók Hraunvallaskóli formlega við Fjölgreinadeild sem áður var kennd við Lækjarskóla. Deildin heitir núna Fjölgreinadeild Hraunvallaskóla og er hún staðsett á sama stað og áður eða í gamla Lækjarskóla. Fjölgreinadeildin er miðlægt skólaúrræði fyrir nemendur með fjölþættan vanda í 8.-10. bekk sem eru með lögheimili í Hafnarfirði. Þar starfa 5-6 starfsmenn (deildarstjóri, kennarar, skóla- og frístundaliðar). Meginmarkmið er að undirbúa nemendur fyrir líf og starf með því að efla sjálfsvirðingu, félagsfærni og líðan.

Breytingar á stjórnun skólans

Breytingar hafa orðið á stjórnun skólans en Helga Þórdís Jónsdóttir er nýr deildarstjóri Fjölgreinadeildar Hraunvallaskóla og Guðbjörg Inga Guðmundsdóttir er orðinn deildarstjóri unglingadeildar ásamt því að vera áfram deildarstjóri miðdeildar. Við óskum þeim báðum velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Ráðstafanir út af covid

Það er mikilvægt að við hjálpumst að og hlúum vel að því veigamikla starfi sem fer fram í Hraunvallaskóla og reynum eins og hægt er að koma í veg fyrir að röskun verði á starfinu út af covid -19. Foreldrar/forsjáraðilar eru því vinsamlegast beðnir að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins eitt foreldri/forsjáraðili með nemanda. Allir utanaðkomandi sem koma inn í skólann þurfa að gæta að 2M reglunni og persónulegum sóttvarnaraðgerðum líkt og handþvotti og sprittun.

Búið er að grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart starfsmönnum en um starfsmenn í skólastarfi gildir 1M reglan. Búið er að fjölga kaffistofum og starfsmenn eru beðnir að fara ekki að óþörfu inn í önnur rými en þeir þurfa að nota vegna starf síns. Búið er að auka við þrif á kennslusvæðum auk þess sem starfsmenn skólans sótthreinsa sameiginlega snertifleti skipulega. Starfsmenn þurfa auk þess að gæta mjög vel að persónulegum sóttvarnaraðgerðum líkt og handþvotti og sprittun.

Reglur um nálægðartakmarkanir gilda ekki um nemendur og því er skólastarfið ekki skert að neinu leyti. Aftur á móti er vel gætt að sóttvarnaraðgerðum fyrir nemendur líkt og handþvotti og sprittun auk þess sem þrif á kennslusvæðum hafa verið aukin eins og áður hefur verið sagt.

Það er mikilvægt að foreldrar/forsjáraðilar sendi ekki börn sín í skólann séu þau með einkenni sem passa við covid. Ávallt skal leita ráða hjá heilsugæslu komi upp grunur um covidsmit. Hjálpumst að við að virða samfélagssáttmálann og munum að við erum öll almannavarnir – og verðum það áfram https://www.covid.is/samfelagssattmali. Nánar um þetta á https://www.covid.is/

Skólamáltíðir

Fyrirkomulag á skólamáltíðum verður með sama hætti og í fyrra. Hægt er að skrá sig í mat á www.skolamatur.is Við hvetjum ykkur til að nýta þessa þjónustu sem og að fá sér hafragraut í upphafi skóladags í matsalnum og þá má ekki gleyma að hægt er að vera í grænmetisáskrift hjá Skólamat líka. Ef nemendur eru ekki í mataráskrift þá er mikilvægt að vera með hollt og gott nesti og munum að allt nesti sem er ígildi sælgætis er bannað. Það á líka við um orkudrykki.

Mentor

Það er okkur mikilvægt að upplýsingar um forsjáraðila séu réttar í Mentor. Því vil ég biðja alla að líta inn á Mentor og kanna hvort allt sé rétt þar inni, heimilisföng, netföng, símanúmer og þess háttar. Ég minni líka á mentorappið sem er bæði foreldra- og nemendavænt.

Ástundunarreglur

Búið er að senda ástundunarreglur til foreldra og þær má einnig finna á heimasíðu skólans http://www.hraunvallaskoli.is/nam-og-kennsla/astundunarreglur/. Þar er nákvæmlega útlistað hvernig fylgst er með ástundun nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar, en reglurnar eru samræmdar í öllum skólum bæjarins.

Skólakynningar

Vegna ástandsins í samfélaginu verða skólakynningar með rafrænum hætti að þessu sinni. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið koma fljótlega.

Umferðarmál

Að gefnu tilefni bendum við á að ný umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi þann 1. janúar 2020. Hér má finna atriði er varða umferðaröryggi, allra nemenda, sem mikilvægt er að fara yfir í upphafi skólaárs http://www.umferd.is/um-okkur/tilkynningar/skolabyrjun. Við biðjum ykkur að kynna ykkur þetta vel og vandlega. Á vefnum www.umferd.is má einnig finna margskonar fróðleik.

Ég óska að endingu öllum í skólasamfélaginu okkar í Hraunvallaskóla farsældar á skólaárinu. Munum að sýna vináttu, samvinnu og ábyrgð. Megum við öll eiga ánægjulegt skólaár framundan, þar sem allir eru staðráðnir í að gera sitt besta!

Kær kveðja Lars Jóhann Imsland skólastjóri


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is