Gagnlegar aðferðir sem auka vellíðan, hamingju og gleði

Fyrirlestur í Víðistaðakirkju mánudaginn 6. febrúar frá kl. 20-21.

1.2.2017

Hafnarfjarðarbær og foreldraráð leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar bjóða til fyrirlestrar í samstarfi við Hugarfrelsi um kvíða barna og unglinga og aðferðir sem reynst hafa vel. Fyrirlesturinn verður haldinn í Víðistaðakirkju mánudaginn 6. febrúar frá kl. 20-21. Hrafnhildur Sigurðardóttir og Unnur Arna Jónsdóttir frá Hugarfrelsi kynna einfaldar og gagnlegar aðferðir sem foreldrar geta nýtt með börnum sínum til að auka vellíðan, hamingju og gleði. Aðferðirnar hafa reynst börnum og unglingum vel til að koma auga á styrkleika sína, efla sjálfsmyndina og jákvæða hugsun. Aðferðirnar hjálpa þeim sem eiga erfitt með einbeitingu, svefn, eru kvíðin og óörugg.

Erindi þeirra byggir á bókunum: 1) Hugarfrelsi - aðferðir til að efla börn og unglinga, 2) Hugarfrelsi - kennsluleiðbeiningar og 3) Siggi og Sigrún slaka á. Hrafnhildur og Unnur hafa undir nafninu Hugarfrelsi gefið út fjölbreytt efni til að bæta andlega og líkamlega líðan. Þær hafa einnig staðið fyrir fjölmörgum fyrirlestrum og námskeiðum fyrir börn, foreldra og fagfólk þar sem áhersla er lögð á sjálfsstyrkingu, öndun, slökun og hugleiðslu. Aðferðir Hugarfrelsis hafa verið innleiddar í fjölda leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Kvíði og birtingarmyndir hans:

Paola Cardenas sálfræðingur og fjölskylduþerapisti hjá Barnahúsi fer yfir kvíða og birtingarmynd hans hjá börnum og unglingum og hvaða atriði gott er að vera meðvitaður um þegar kvíðaeinkenni gera vart við sig. Paola Cardenas hefur fengið sérhæfða þjálfun í viðtalstækni (Forensic Interviewing) og í notkun áfallamiðaðrar hugrænnar atferlismeðferðar (TF CBT). Í dag starfar Paola sem sálfræðingur og sérhæfður rannsakandi í Barnahúsi þar sem hún vinnur með börnum og unglingum og fjölskyldum þeirra. Áður vann Paola hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem yfirsálfræðingur teymis sem sinnir börnum og unglingum. Hún hefur einnig starfað á barna og unglingageðdeild Landspítalans og hjá Rauða kross Íslands.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis!  Mikilvægt er að foreldrar fari inn á eftirfarandi fésbókarsíðu og staðfesti mætingu á viðburðinn. www.facebook.com/events/450699418653284/
#hugarfrelsi #lesturerlífsinsleikur #hafnarfjörður #áframhafnarfjörður#heilsubærinnhafnarfjörður

WP_20140507_19_06_31_Smart


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is