GRÚSKIÐ!

Áhugasviðs- og þemadagar við lok skólaársins í Hraunvallaskóla

24.5.2019

Síðastliðin ár hefur skapast sú hefð í Hraunvallaskóla að loknum vorprófum að nemendur einhenda sér í áhugasvið- og þemaverkefni í lok maí. Útfærslan er örlítið mismundandi eftir deildum en það sem er sameiginlegt með Grúski á öllum stigum er að nemendur vinna að verkefnum sem þeir tengja við áhugamál sín og/eða námsefni sem þeir hafa unnið að í vetur sem vakið hafa sérstakan áhuga þeirra. Áhersla er á hlutbundna vinnu og samþættingu námsgreina og þá aðallega við íslensku og náttúru- og samfélagsgreinar. Verkefnin eru metin samkvæmt hæfniviðmiðum í skólanámskrá og einkunn birt á vitnisburðaskjali nemenda. Að Grúski loknu er blásið til sýningar og foreldrum boðið á opið hús á samtalsdegi í júní á uppskeruhátíð Grúsksins. Þá iðar Hraunvallaskóli af lífi og gleði þegar nemendur, foreldrar og starfsmenn koma saman og líta augum allan þann afrakstur sem orðið hefur til þá 6 daga sem Grúskið sendur yfir.

Með tilkomu Grúsksins hafa skóladagar frá námsmatslokum að vori til skólaslita breyst í öflugan þekkingarleiðangur þar sem nemendur í 1.-10. bekk fá tækifæri til að tengja nám og áhugasvið sitt saman með fjölbreyttum hætti. Einnig hefur Grúskið leitt til aukins samstarfs heimilis og skóla því foreldrar eru nemendum innan handar við verkefni þeirra að ógleymdri samveru á uppskeruhátíð Grúsksins.

Hér gefur að líta áherslu í Grúskinu eftir deildum:

Unglingadeild:

Nemendur vinna áhugasviðsverkefni þar sem útgangspunkturinn er að fjalla um og búa til afurð í þrívídd sem tengist áhugamálum nemenda með tengingu við að lágmarki þrjár faggreinar. Dæmi um þetta er eldfjall. Þá gerir nemandinn einhverskonar líkan af eldfjalli t.d. úr leir eða pappamassa. Svo þarf hann að skrifa texta um eldfjöll þar sem ýmis heimildavinna er að baki. Þarna er nemandinn búinn að tengja verkefnið sitt við stærðfræði (líkanið), þema (náttúrfræðin) og íslenskuna (textinn). Nemendur þurfa að útlista verkefni sín og halda utan um þau í dag- og verklagsbók sem hver og einn fær afhenta frá kennara, verkefni þeirra verða að vera samþykkt af kennara áður en hafist er handa við uppbyggingu þeirra. Sérkennarar, íþróttakennarar og aðrir faggreinakennarar koma einnig að vinnu þeirra á einn eða annan hátt en íþrótta-, sund- og smiðjutímar falla alveg niður þessa daga.

Miðdeild:

Kennarar hvers árgangs skipuleggja verkefnið í samvinnu við alla þá sem koma að s.s. sérkennara. Áhersla er á samþættingu námsgreina og hlutbundna vinnu þannig að foreldrar geti komið og séð afrakstur á opnu húsi í byrjun júní. Hefðbundin stundaskrá heldur sér og smiðjur og íþróttatímar eru inni. Hver árgangur er með ákveðin viðfangsefni:

  • 5. bekkur: Landnám Íslands; unnið með landnám Íslands og ákveðna landnámsmenn. Nemendum skipt í hópa og hver hópur vinnur með ákveðinn landnámsmann og þætti sem tengjast landnámi Íslands.

  • 6. bekkur: Norðurlöndin; unnið er með Norðurlöndin. Nemendum skipt í hópa og hver hópur setur upp ferðaskrifstofu sem eru opnar á opnu húsi.

  • 7. bekkur: Evrópa; unnið er með lönd Evrópu. Nemendum skipt í hópa og hver hópur skipuleggur bakpokaferðalag um ákveðinn fjölda landa. Huga þarf að öllum atriðum s.s. upplýsingar um lönd, gististaði, ferðamáta, afþreyingu og kostnað.

Yngsta deild:

Líkt og í miðdeild skipuleggja kennarar hvers árgangs þemað í samvinnu við þá sem koma að starfi bekkjarins. Áhersla er á samfélags- og náttúrufræði og viðfangsefnin valin í strax í upphafi vetrar. Íþrótta - og sundtímar halda sér en í öðrum kennslustundum er unnið að þemanu á fjölbreyttan hátt. List- og verkgreinakennarar vinna með nemendum að þemavinnunni á svæðum í list- og verkgreinatímum. Hver árgangur er með ákveðið viðfangsefni.

  • 1.bekkur: Fjallar um húsdýrin. Nemendur vinna skapandi verkefni og vinna í hópum að því að kynna sér helstu upplýsingar um íslensku húsdýrin.

  • 2.bekkur: Tekur fyrir þema um fugla og skordýr. Árganginum er skipt í hópa sem fara á milli stöðva og vinna ákveðin verkefni. Verkefnin tengjast; skordýrum, fuglum, hreiðrum, eggjum og furðufuglum.

  • 3.bekkur: Vinnur með himingeiminn í tengslum við námsefnið Komdu og skoðaðu himingeiminn. Nemendur vinna í hópum, útbúa líkan af sólkerfinu og fræðast um geiminn, geimferðir og geimflaugar.

  • 4.bekkur: Fræðist um hafið í kring um Ísland, fjallar um þorskastríðið og lífið í sjónum í tengslum við námsefnið Hvalir og Komdu og skoðaðu hafið. Árgangurinn fer í fjöruferð, heimsækir Hvalasafnið og vinnur fjölbreytt verkefni úr efniðviðnum.

Gruskid-MVIMG_20180601_093039Gruskid-IMG_20180601_093919Gruskid-IMG_20180601_094528Gruskid-IMG_20180601_100052Gruskid-IMG_20180601_094615

Gruskid-IMG_20180601_093927Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is