Niðurstöður á ytra mati

2.5.2017

Ágætu foreldrar og nemendur.

 Eins og ykkur er kunnugt var starf við skólann metið nýlega með ytra mati. Matið unnu matsmenn á vegum Menntamálastofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Matið er fyrst og fremst til að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum. Tilgangur matsins er einnig að afla upplýsinga um skólastarf, árangur þess og þróun fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemendur. Matið er til að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.

Stjórnun

Stefna skólans, bæði einkunnarorð og sérstaða hans eru skýrt fram sett á heimasíðu. Sérstaðan felst ekki síst í „opnum skóla“ og teymiskennslu/parakennslu. Verkaskipting stjórnenda er skýr og miðlun upplýsinga þeirra á milli er regluleg.

Í símenntunaráætlun koma fram áherslur skólans, sveitarfélags og aðalnámskrár og samræmi er milli hennar og umbótaáætlunar skóla. Skólanámskrá og starfsáætlun endurspegla áherslur í skólastefnu sveitarfélagsins, þar koma fram þau viðmið sem birt eru í aðalnámskrá. 

Skólaráð fundar reglulega og er virkur samráðsaðili í stefnumörkun skólans og fjallað er um markmið og hlutverk foreldrafélags í starfsáætlun skólans.

Samstarf  í skólanum einkennist af jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti. Leiðir til að viðhalda jákvæðum skólabrag eru m.a. mótaðar í tengslum við SMT-skólafærni.

Vinna þarf að því að kennarar samræmi hversu reglulega og hvers konar upplýsingar foreldrar fá í gegnum Mentor. Huga að því að allir hagsmunaaðilar komi að endurskoðun skólanámskrár m.a. að nemendur og foreldrar eigi þar aðkomu í vissum atriðum t.d. varðandi skólareglur. Kjósa þarf nemendur í skólaráð til tveggja ára í senn eins og reglugerð kveður á um. Leita þarf allra leiða til að ráða kennara til starfa sem hafa til þess lögbundna menntun.

Nám og kennsla

Skólanámskrá er skýrt fram sett og endurskoðuð reglulega. Þar er grunnþáttum menntunar gerð skil í námsvísum. Kynna þarf námsvísa vel fyrir nemendum og foreldrum svo þeir verði virkir í námi nemenda. Með teymis- og paravinnu er mikið samstarf kennara innan árganga og fagleg ígrundun sem kemur námi nemenda til góða. Ákjósanlegt væri að efla þá kennsluhætti enn frekar svo þeir leiði til markvissrar, skilgreindrar teymiskennslu á öllum stigum. Námsmat er fjölbreytt, tengist markmiðum náms og þarfa nemenda. Hæfniviðmið hafa verið innleidd í unglingadeild.

Nemendur fá þjálfun í fjölbreyttum vinnubrögðum og nemendur á unglingastigi eiga kost á fjölbreyttum valfögum. Lögð er áhersla á fræðslu um lýðræði m.a. í skólabyrjun á unglingastigi í viku auk þess sem leiðtogaþjálfun, hluti af samfélagsfræði á sama stigi, tengist því.

Markvisst er fylgst með námi og framförum allra nemenda og greiningar og skimanir nýttar til að finna þá sem þurfa sérstaka aðstoð. Lögð er áhersla á skóla án aðgreiningar í öllu skólastarfinu og skólabragur einkennist af sanngirni og virðingu fyrir öllum.

Leita þarf allra leiða til að auka árangur nemenda á samræmdum könnunarprófum. Huga þarf að enn meiri fjölbreytni kennsluhátta m.a. að gera umræðum og skoðanaskiptum hærra undir höfði í náminu og efla samvinnu. Þrengsli í opnum rýmum skerða tækifæri til að koma til móts við fjölbreyttar og ólíkar þarfir nemenda.

Innra mat

Fyrir liggur áætlun um innra mat yfirstandandi skólaárs og hún er birt í starfsáætlun. Í starfsáætlun er einnig fjallað um helstu leiðir sem skólinn fer við að meta sitt innra starf og þar er greinargerð um innra mat skólans á liðnu skólaári. Verkáætlun um umbætur í innra mati er í starfsáætlun skólans og fyrir liggur langtímaáætlun í umbótum til þriggja ára.

Fjölbreyttar aðferðir eru notaðar við að afla gagna í innra mati og leitað er eftir sjónarmiðum allra hagsmunaaðila. Allar áætlanir um innra mat og umbætur í kjölfar niðurstaðna eru bornar undir skólaráð með formlegum hætti.

Gera þarf langtímaáætlun um innra mat þar sem fram kemur að allir þættir skólanámskrár séu metnir reglulega. Æskilegt er að skipa matsteymi sem fulltrúar allra hagsmunaaðila eiga aðild að, þ.e. stjórnendur, kennarar, annað starfsfólk, foreldrar og nemendur. Í umbótaáætlun þarf að tilgreina hvenær og hvernig á að meta árangur aðgerða.

 Teymisvinna

Skólinn hefur innleitt teymisvinnu í öllum árgöngum og kennarar í list- og verkgreinum, íþróttum og sérkennslu vinna einnig saman í teymum. Í teymunum skapast tækifæri til umræðu og ígrundunar sem styrkir nám nemenda og auðveldara er að nýta hæfileika og ólíka styrkleika kennara fyrir fleiri nemendur. Verið er að þróa teymiskennslu sem parakennslu eða paraumsjón í 1.-7. bekk þar sem tveir umsjónarkennara deila umsjónarábyrgð á tveimur bekkjum. Mikilvægt er að nýta teymiskennsluna til að skapa fjölbreytta kennsluhætti, sveigjanlega hópaskiptingu og til að efla markvissa samvinnu nemenda enn frekar. Einnig þarf að kynna vel fyrir foreldrum markmið og tilgang teymiskennslunnar.

 Í framhaldi þessa mats verður matsskýrsla send skólanum og sveitarstjórn þar sem fram koma nánari niðurstöður ytra matsins. Skýrslan verður aðgengileg á heimasíðu ráðuneytis og Menntamálastofnunar. Skóli og sveitarstjórn setja í framhaldi matsins fram áætlun um þær umbætur sem lagðar eru til og ráðuneyti fylgist síðan með að þeim sé framfylgt. 

 

Frekari greining:
Tafla 1 sýnir niðurstöður á þeim þáttum sem til skoðunar voru í ytra mati.
Litirnir sem notaður er í töflunni standa fyrir eftirfarandi kvarða:
• D → 1,0 – 1,5 = rautt – mikil umbótaþörf á flestum eða öllum þáttum. Óviðunandi verklag,
uppfyllir ekki viðmið um gæðastarf á mörgum mikilvægum þáttum.
• C → 1,6 – 2,5 = gult – meiri veikleikar en styrkleikar. Viðunandi verklag, uppfyllir viðmið um
gæðastarf að mörgu leyti, einhverjir mikilvægir þættir sem þarfnast úrbóta.
• B → 2,6 – 3,5 = ljósgrænt – meiri styrkleikar en veikleikar. Gott verklag, flestir þættir í samræmi
við lýsingu á gæðastarfi.
• A → 3,6 – 4 = grænt – flestir eða allir þættir sterkir. Mjög gott verklag sem samræmist fyllilega
lýsingu um gæðastarf.

Með bestu kveðju, Hanna Hjartardóttir og Birna Sigurjónsdóttir

Menntamálastofnun



Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is