Norræna skólahlaupið 2014

8.10.2014

Í dag fór fram Norræna skólahlaupið í Hraunvallaskóla. Krakkarnir stóðu sig vel að venju enda í þrusuformi. Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Markmið - með Norræna skólahlaupinu er leitast við að:

  • Hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu
  • Kynna og skýra nauðsyn þess að hreyfa sig, reyna á líkama sinn og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan

Með Norræna skólahlaupinu er keppt að því að sem flestir (helst allir) séu þátttakendur. Þeir skólar sem þess óska geta þó að eigin frumkvæði komið á keppni milli einstakra bekkja, t.d. hvaða bekkur hleypur flesta kílómetra miðað við fjölda nemenda. Einnig mætti koma á keppni milli skóla með svipuðum hætti. Hver skóli sendir ÍSÍ skilagrein um árangur sinn þar sem fram kemur hve margir tóku þátt í hlaupinu og hve langt hver þátttakandi hljóp. Þátttakendur geta valið hve langt þeir hlaupa þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri og heildarúrslit  birt í fjölmiðlum og send út til skólanna. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Mjólkursamsalan, MS, hefur styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og samstarfsaðili að þessu verkefni er Íþróttakennarafélag Íslands. 


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is