Lífshlaupið

28.1.2015

Hraunvallaskóli hefur ákveðið að taka þátt í Lífshlaupinu 2015. Lífshlaupið er átaks- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Lífshlaupið verður ræst miðvikudaginn 4. febrúar og stendur að þessu sinni til 17. febrúar. Landsmenn hafa tekið Lífshlaupinu gríðarlega vel. Heildarfjöldi þátttakenda jókst á milli ára um 2,7% og var árið 2014 21.974 en 21.400 árið 2013. Aukningin var mest í vinnustaðakeppninni en þar jókst þátttakan um 9,0%.

 Megin markmið verkefnisins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Við ætlum að taka þátt í hvatningarleik fyrir grunnskóla þar sem nemendur okkar keppa við aðra skóla um það hvort þeir nái að hreyfa sig í 60 mínútur daglega eða á meðan átakið stendur yfir. Starfsfólk skólans ætlar einnig að taka þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins en einnig er hægt að taka þátt í einstaklingskeppni sem stendur yfir allt árið. Lífshlaupið hentar fyrir alla. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.lifshlaupid.is  

Við í Hraunvallaskóla hvetjum alla til þess að taka þátt. Við villjum biðja ykkur foreldrar/forráðamenn góðir að hvetja börnin ykkar til þátttöku og taka þátt í því að þau nái þeim 60 mínútum í hreyfingu á dag samkvæmt ráðleggingum frá embætti landlæknis um hreyfingu.

 1.-10. bekkur : Nemendur/forráðarmenn skrá sjálfir hreyfinguna sína inn á www.lifshlaup.is sjá leiðbeiningar hér að neðan.

 1.-10. bekkur: Ef þitt barn óskar eftir því að taka þátt í einstaklingskeppni (1.-10. Bekkur) Lífshlaupsins þurfið þið að skrá það inn á vefinn á netfangi og lykilorði. Þegar smellt er á „Nýskráning“ þarf að fylla út upplýsingarnar sem þar koma fram m.a velja skóla og undir „Bekkur“ þarf að finna þann hóp sem viðkomandi nemandi er í. Mikilvægt er að velja réttan bekk/hóp. Sú hreyfing sem einstaklingurinn skráir inn telst þá sjálfkrafa með í heildarárangri fyrir bekkinn og skólann og er það þá á ábyrgð nemandans að skrá inn alla hreyfingu.

Vonandi verða sem flestir með. Þetta virkar flókið í upphafi en það er bara að lesa sig til. Ykkur er velkomið að hafa samband við undirrtiaða ef ykkur vantar frekari upplýsingar.

 Gangi ykkur vel; Þín heilsa - Þín skemmtun


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is