Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

10.3.2016

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Hafnarborg í gær, 8. mars og um leið var fagnað 20 ára afmæli keppninnar. 14 nemendur kepptu, tveir frá hverjum skóla í Hafnarfirði. Hver lesari las þrisvar; fyrst textabrot úr bókinni ,,Flugan sem stöðvaði stríðið“ eftir Bryndísi Böðvarsdóttur, þá ljóð eftir Guðmund Böðvarsson sem var ljóðskáld keppninnar í ár og að lokum sjálfvalið ljóð. Okkar upplesarar, þau Vala Marie Unnarsdóttir úr 7. Vináttu og Dagur Snær Hilmarsson úr 7. Samvinnu, stóðu sig með mikilli prýði og voru skólanum sínum til sóma.  Sigurvegari að þessu var Anna Vala Guðrúnardóttir úr Víðisstaðaskóla. Ólafur Ragnar Grímsson talaði til krakkanna og afhenti þeim öllum viðurkenningu fyrir þátttökuna.  Einnig voru veitt verðlaun í keppni um besta boðskortið en 6. bekkingum býðst árlega að taka þátt í þeirri keppni.  Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra afhenti verðlaun fyrir bestu smásögur í Smásagnasamkeppni 8.-10. bekkja og þar varð Rakel Ósk Sigurðardóttir úr 10. IÞG í þriðja sæti. Á meðan dómnefnd var að störfum spilaði hljómsveitin Smekkir sem samanstendur af nemendum úr Tónkvísl, hryndeild Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, tvö lög. Þar fóru Bergþór Bjarkason úr 7. Vináttu, sem spilar á básúnu og Donna María Skúladóttir, söngkona, úr sama bekk á kostum. Þetta var glæsileg hátíð í alla staði og við erum mjög stolt af öllum okkar fulltrúum.



Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is