Fjölgreindarleikar

18.3.2016

Síðustu daga hafa staðið yfir fjölgreindarleikar hér hjá okkur í Hraunvallaskóla. Nemendum var skipt upp í 11-13 manna hópa þvert á deildir þannig að nemendur úr 1.-10. bekk voru saman í hóp. Elstu nemendur skólans héldu utan um sinn hóp og ferðuðust milli fjölbreyttra stöðva frá þriðjudegi til fimmtudags. Meðal þess sem boðið var upp á voru fjölbreyttar þrautir, spil, leikir, hreyfing og sköpun. Sem dæmi má nefna; ljóðastöð, súkkulaðiþraut, kahoot tónlistarkeppni, minute to win it, orða- og talnaþrautir, hnútakennslu, hugleiðslu, numicon og servíettublóm. Tveir hópar störfuðu á sömu stöð alla þrjá dagana en það voru annars vegar leiklistarhópur og hins vegar heimildahópur. Í dag fengum við að sjá afrakstur leiklistarhópsins á sal skólans en þá var flutt Hraunvallaskólaútgáfa af Fólkinu í blokkinni. Leikritið var í þremur þáttum þar sem blandað var saman lifandi leikhúsi og leiknum myndböndum á skemmtilegan hátt. Heimildamynd um fjölgreindaleikana er svo væntanleg fljótlega þegar heimildahópur hefur lokið störfum. Þetta var skemmtilegt uppbrot í síðustu viku fyrir páskaleyfi.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is