Drekasprettur í Hraunvallaskóla

10.5.2016

Undanfarnar tvær vikur hefur staðið yfir lestrarátak í Hraunvallaskóla sem nefnist DREKASPRETTUR. Markmið átaksins er að þjálfa lestur, auka almennan íslenskan orðaforða og efla áhuga á lestri.  Allur lestur taldist með í átakinu, heima og í skólanum. Allur íslenskur texti var gjaldgengur; bækur, dagblöð, tímarit, teiknimyndasögur og netmiðlar. Nemendur skráðu hjá sér hversu margar mínútur þeir lásu og eftir hverjar 60 mínútur skráðu þeir lesturinn á drekaegg sem komið var fyrir í drekahreiðri deildarinnar.  Allir árgangar tóku þátt og stóðu sig frábærlega. Alls lásu nemendur Hraunvallaskóla 4050 klukkustundir þessar tvær vikur sem átakið stóð en það gera samtals 243000 mínútur.

Í morgun hittust allir nemendur skólans á sal þar sem tilkynnt var hvaða árgangur var hlutskarpastur. Það voru að lokum 5. bekkir sem stóðu uppi sem sigurvegarar og hlutu drekasprettsmeistaratitilinn 2016. Þeir lásu að meðaltali 396 mínútur þessar tvær vikur. Drekasprettsbikarinn verður því á þeirra svæði fram að næstu keppni.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is