Gagnlegur fundur um málefni Hraunvallaskóla

27.5.2016

Í gær fór fram góður fundur um málefni Hraunvallaskóla undir fyrirsögninni Opinn fundur – Hvernig bætir sprunginn skóli við sig fleiri nemendum. Á fundinn mætti fjöldi foreldra, bæjarstjóri, fræðslustjóri, formaður fræðsluráðs, stjórnendur skólans og aðrir velunnarar.

Tvö erindi voru flutt en það fyrra var samantekt úr nemendahluta og foreldrahluta Skólapúlsins. Þar kom meðal annars fram að krakkarnir okkar telja sig vera þrautseiga í námi, hafa trú á eigin vinnubrögðum og getu til náms, hafa gott sjálfstraust og samsama sig vel við nemendahópinn. Foreldrar eru ánægðir með samskipti nemenda við kennara og starfsfólk skólans, ánægja er með sérkennslu og stuðning og foreldraviðtöl. Foreldrar hafa aftur á móti áhyggjur af því hvernig skólanum tekst að mæta þörfum nemenda og telja aðstöðu og þjónusta hafa dalað svo eitthvað sé nefnt.

Öll stefnum við að góðri líðan nemenda, góðum námsárangri og því náum við best með öflugri samvinnu heimilis og skóla og góðu upplýsingaflæði. Því höfum við ákveðið að fara í lausnaleit með foreldrum, nemendum og starfsfólki þann 6. júní kl. 14-16. Við óskum eftir 3-4 fulltrúum foreldra á hverju stigi til að taka þátt í rýnihóp til að efla og hlúa að skólastarfinu. Hvetjum við alla til að stíga fram og bjóða fram krafta sína í þetta skemmtilega verkefni. Áhugasamir geta sent póst á skólastjóra lars@hraunvallaskoli.is.

Seinna erindið var um næsta skólaár og áherslur á nýju skólaári. Þar kom fram að Hraunvallaskóli mun leysa skólamál á Völlunum næsta vetur með því að grunnskólinn tekur yfir lausar kennslustofur leikskólans en þannig mun aðstaðan batna á margan máta þrátt fyrir fjölgun nemenda. Haustið 2017 mun Skarðshlíðarskóli hefja starfsemi og smám saman mun komast jafnvægi á nemendafjölda í Hraunvallaskóla. Miklvægt er að stofnun Skarðhlíðarskóla feli í sér fækkun nemenda í Hraunvallaskóla því í dag er Hraunvallaskóli ígildi tveggja grunnskóla í Hafnarfirði og slíkt getur ekki gengið upp til lengdar. Starfshópur um Skarðhlíðarskóla er starfandi og hefur ekki skilað frá sér fullmótuðum tillögum. Fram kom á fundinum að endanlegar tillögur muni koma fram á næstu mánuðum.

Hvað varðar næsta vetur þá mun aðstaða Hraunsels og Mosans batna og kennslusvæði munu rúma þann fjölda nemenda sem þau þurfa að bera. Aðstaða fyrir list- og verkgreinar mun einnig batna. Verið er að skoða hvernig megi bæta aðstöðu kennara og starfsmanna og lagfæringar verða gerðar á skólalóð. Bætt hefur verið við stjórnun skólans, deildarstjóri á miðstigi bætist í hópinn ásamt  verkefnastjóra ipad innleiðingar á unglingastigi og verkefnastjóri læsis verður áfram. Þá eru mörg spennandi verkefni framundan en þar ber hæst innleiðing á ipad 1:1 í unglingadeild, læsisverkefni, parakennsla í 1.-7. bekk og stefnt er að því að innleiða vinaliðaverkefni í 1.-7. bekk með stuðningi foreldrafélagsins. Það eru því spennandi tímar framundan og mikill vilji til að gera gott skólastarf betra.

Það er krefjandi verkefni að fást við aukinn nemendafjölda og húsnæðisvanda á hverju ári. Það tekur tíma og orku frá því sem er mikilvægast í skólastarfinu, þ.e. að styrkja innra starf og auka gæði náms. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning og velvilja sem þið foreldrar góðir sýnið með því að mæta á fund líkt og í gær og láta ykkur málin varða.

Kveðja, Lars Jóhann Imsland skólastjóri


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is