Skólaþróun

Í Hraunvallaskóla er áhersla á þróunarstarf


Breytt kennsluskipulag á unglingastigi

Skólaárið 2022-2023 hófst þróunarverkefni um breytt kennsluskipulag á unglingastigi. Markmið þess er að:

  • Að skipuleggja skólastarf á unglingastigi í anda opins skólastarfs
  • Að stuðla að samþættingu námsgreina og samvinnu kennara.
  • Að efla samvinnu kennara og nemenda
  • Að efla samvinnu og sjálfstæði nemenda

Lagt er upp með kennslu innan árgangs þar sem faggreinakennsla, samþættingarverkefni og vinnustundir eru í öndvegi. Kennarar vinna náið saman við undirbúning og framkvæmd kennslunnar. Bókleg kennsla á unglingastigi skiptist í faggreinakennslu (skv. viðmiðunarstundaskrá), Hraunflæði og vinnustundir. Hraunflæði er samþættingarverkefni/samþættingarlotur sem eru allt skólaárið. Lagt er upp með að samþætta út frá íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og lífsleikni. Áhersla er á upplýsingatækni og skapandi vinnubrögð. Hraunflæði er kennt allt skólaárið en hvert Hraunflæði getur tekið 1 til 5 vikur. Kennarar vinna sameiginlega að undirbúningi og þróun Hraunflæða í samvinnu við deildarstjóra. Vinnustundir eru tímar þar sem nemendur geta unnið sjálfstætt eftir áætlun undir stjórn kennara. Árgangur/bekkir eru saman á svæði á sama tíma og faggreinakennarar eða umsjónarkennarar eru til staðar og leiðbeina.

Skólaárið 2023-2024 bættist við sérstakur kynja- og kynfræðslutími einu sinni í viku fyrir nemendur í 8.-10. bekkjum.

pad innleiðing

Haustið 2016 hófst innleiðing á Ipad 1:1 í unglingadeild og haustið 2018 bættist miðdeild við. Markmið innleiðingarinnar er að gera námið áhugaverðara og skemmtilegra fyrir nemendur samhliða sem þeir fá tækifæri til að bera meiri ábyrgð á eigin námi og bæta þannig árangur sinn. Með spjaldtölvuvæðingu færum við námið nær veruleika nemenda og tengjum það við daglegt líf þeirra og opnum á að fá þekkingu frá umheiminum. Við ýtum undir sköpun, áhuga og fjölbreytt nám hjá nemendum. Nemendur geta á auðveldan hátt skilað verkefnum með því að búa til myndbönd, útvarpsþætti, rafræn plaköt, gagnvirkar bækur eða notað sköpunargáfuna og tengt saman listir og tækni. Spjaldtölvuvæðingin býður upp á aukna samvinnu og samstarf á milli nemenda og kennara innan skólans, aukið samstarf á milli skóla innanlands og utan.

Haldið áfram að þróa kennsluhætti í mið– og unglingadeild út frá þessum forsendum. Ýtt verður enn frekar undir sjálfstæð vinnubrögð nemenda með metnaðarfullu námsumhverfi og stuðlað að vellíðan þeirra og hamingju. Áhersla verður á heildstæð verkefni, fjölbreytta kennsluhætti og námsmat í stíl.

Læsi

Árið 2014 fékk Hraunvallaskóli styrk úr Nýsköpunarsjóði fræðsluráðs í Hafnarfirði til að efla lestrarkennslu í skólanum og læsi nemenda. Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í gerð lestrarstefnu fyrir skólann og myndað lestrarteymi sem átti að vinna að mótun stefnunnar. Við gerð stefnunnar voru hafðir til hliðsjónar þeir þættir sem Mennta- og lýðheilsusvið hefur skilgreint og lagt upp með í lestrarkennslu í grunnskólum Hafnarfjarðar. Skólaárið 2015-2016 var áfram unnið að þróun lestrarstefnunnar og hún löguð að áherslum verkefnis Hafnarfjarðarbæjar ,,Lestur er lífsins leikur“. Lestrarstefnu skólans er ætlað að vera upplýsandi og leiðbeinandi áætlun fyrir starfsfólk skólans og foreldra. Hún stuðlar að samfellu í lestrarnáminu og gefur starfsfólki og foreldrum skýra sýn á hvert er stefnt og hvaða leiðir á að fara. Foreldrar þurfa að vera vel upplýstir um þær aðferðir sem notaðar eru við kennslu læsis í skólanum. Það auðveldar þeim að styðja við barn sitt og hvetja það áfram.

Með lestrarstefnunni er leitast við að samræma og skýra mat á árangri nemenda, veita virka eftirfylgni og stuðla þannig að jöfnum rétti allra nemenda til árangurs í lestrarnáminu.

Fræðsluskot

FRÆÐSLUSKOT fyrir kennara er fræðsla og hagnýt kennslunálgun í íslensku sem öðru tungumáli. Verkefnisstjórar eru Hulda Karen Daníelsdóttir, Ingibjörg Edda Haraldsdóttir og Kristín Guðnadóttir. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði og var unnið skólaárið 2016-2017.

Parakennsla

Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á  PARAKENNSLU eða paraumsjón í 1.-7. bekk þar sem tveir umsjónarkennara deila umsjónarábyrgð á tveimur bekkjum en með teymisvinnu og paraumsjón er verið að jafna álag á kennara og auka sveigjanleika í skipulagningu. Þetta fyrirkomulag gefur nemendum einnig möguleika á að kynnast fleiri félögum og eflir samvinnu nemenda í árgangi. Samstarf kennarateyma við foreldra og forráðamenn eflist samhliða þar sem nemendur hafa núna tvo umsjónarkennara. Meginmarkmið paraumsjónar eru því að efla samvinnu og samstarf, hvort sem snýr að kennurum, nemendum eða foreldrum. Í ár erum við með einn árgang, 2. bekk, sem hefur þrjá kennara og er þessi hópur ákveðin þróun fyrir það sem koma skal á næstu árum. Hér er verið að þróa samstarf og kennsluaðferðir þriggja kennara sem eru að vinna saman með hópinn.

Þróun kennsluhátta í unglingadeild

Skólaárið 2011-2012 unnu kennarar í unglingadeild Hraunvallaskóla að þróunarverkefni sem fjallaði um kennsluhætti í opnum skóla og að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Markmið verkefnisins voru m.a. að:

  • Nýta möguleika sem opinn skóli hefur upp á að bjóða
  • Efla kennara skólans í að vinna í opnum skóla, þar sem áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám og teymiskennslu
  • Gera nám einstaklingsins heildstæðara og markvissara
  • Auka skilning kennara á þörfum nemenda
  • Efla sjálfstæði nemenda

Á næstu þremur árum var starfið svo þróað enn frekar áfram og námi nemenda í unglingadeild Hraunvallaskóla var skipt niður í 6 þrep, en hvert þrep samsvarar einni önn að umfangi. Lagt var upp með að mæta hverjum og einum nemenda á hans og sett var á laggirnar námsver að þeim sökum. Nám í samfélagsfræði, náttúrufræði og lífsleikni var samþætt og áhersla er lögð á heildstæð viðfangsefni og fjölbreyttar kennsluaðferðir, samvinnunám og fjölbreytt námsmat. Allir nemendur í 8.-10. bekk fóru í list- og verkgreinahringekju (smiðjur) þar sem þeir fá kennslu í hefðbundnum verkgreinum auk þess sem þeir fá kennslu í leiklist, kroppaklappi og leiðtogafærni. Í þessum tímum var aldursblandað og kynjaskipt. Boðið var upp á fjölbreytt val í unglingadeild þar sem skipulag valgreina var með þeim hætti að um fjögur valtímabil var að ræða. Yfir skólaárið fékk hver nemandi tækifæri til að fara í 12 valnámskeið en í heildina voru kennd um 50 valnámskeið á skólaárinu. Til að styrkja samband kennara og nemenda þá höfðu umsjónarkennarar sérstakan umsjónartíma með nemendum sínum sem nefnist stundin okkar. Þar gafst nemendum tækifæri til að vinna áhugasviðsverkefni, fá aðstoð við verkefnavinnu, vinna upp heimanám og fleira í þeim dúr.

Hraunvallaskóli fékk viðurkenningu Fræðsluráðs Hafnarfjarðar árið 2015 fyrir nýbreytni og skólaþróun á unglingastigi. 

Aðalnámskrá grunnskóla

Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar hefur  unnið verkáætlun fyrir alla grunn- og leikskóla Hafnarfjarðar sem eru samstíga í að móta nýja vinnuferla og vinnubrögð í samræmi við lög og reglugerðir sem ný Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um. Markmið verkáætlunar er að samhæfa vinnulag innan sveitarfélags við innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla í alla grunnskóla í Hafnarfirði. Sjá nánar hér.


Heilsueflandi grunnskóli 

Hraunvallaskóli er formlega þátttakandi í verkefni sem ber heitið Heilsueflandi grunnskóli á vegum Lýðheilsustöðvar. Eitt helsta markmið heilsueflandi grunnskóla er að vinna markvisst að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda, starfsfólks og samfélagsins. Í heilsueflandi grunnskóla er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi átta þætti skólastarfsins: Nemendur, mataræði/tannheilsa, heimili, geðrækt, nærsamfélag, hreyfing/öryggi, lífsstíll og starfsfólk. Sjá nánar hér.

Skrefi framar

Hraunvallaskóli var þátttakandi í þróunarvettvangi opinna skóla á á SV horni landsins skólaárin 2013-2015 Þátttökuskólar auk Hraunvallaskóla voru Akurskóli í Reykjanesbæ, Sjálandsskóli í Garðabæ, Ingunnarskóli og Norðlingaskóli í Reykjavík. Skólarnir áttu það sammerkt að hafa verið hannaðir með að námsumhverfi og skólastarf hæfi námi 21. aldarinnar. Starfið fór að miklu leyti fram í opnum rýmum og hönnun tók mið af fjölbreyttu hópastarfi, teymisvinnu kennara og annarra starfsmanna um nám og kennslu, einstaklingsmiðun og notkun upplýsingatækni í skólastarfi. 

Einkunnarorð verkefnisins voru: „Við komumst skrefi framar – saman!“

Markmið verkefnisins var að:

  •  Gera nám nemenda markvissara og innihaldsríkara.
  •  Stuðla að því að möguleikar sveigjanlegs námsumhverfis séu nýttir til fullnustu.
  •  Tryggja vettvang fyrir starfsþróun kennara sem tekur mið af starfsaðstæðum þeirra.
  •  Búa til stuðningsnet fyrir stjórnendur og annað starfsfólk skóla.
  •  Skapa samkennd og samgang milli skólanna.

Verkefnið fólst m.a. í gagnkvæmum heimsóknum, upplýsingafundum, þróunarverkefnum, símenntun og starfsþjálfun skólanna sem tóku þátt í verkefninu. Gert var ráð fyrir að allir skólar leggðu sitt af mörkum. Horft var fyrst og fremst til þess mannauðs sem bjó í þátttökuskólunum og að virkja lærdómssamfélögin þar. Verkefnið krafðist þess að starfsfólk skólanna væri tilbúið til þess að taka þátt í þróunarstarfi sem náði út fyrir veggi skólans, veitti öðrum aðgengi að reynslu sinni, sigrum jafnt sem ósigrum, tæki á móti gestum í námsheimsóknum, samlaga reynslu annarra að eigin veruleika, verja hluta undirbúnings- og símenntunartíma og gefa af sér í samstarfi.

                                                                                Kynning
                                                                    Skýrsla um verkefnið

Stolt siglir fleyið - Þróunarverkefni um námsmat

Skólaárið 2012-13 var unnið þróunarverkefni um námsmat sem ber heitið Stolt siglir fleyið. Markmið verkefnisins var að skipuleggja og þróa námsmat sem byggist á fjölbreyttum námsmatsaðferðum og er einstaklingsmiðað, þ.e. með nemandann í forgrunni.  Leitast var við að mæta nýjum áherslum í námsmati sem kveðið er á um í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og skólastefnu Hafnarfjarðar. 

Kynning

Skýrsla um verkefnið

Samstarf leik- og grunnskóla

Hraunvallaskóli fékk viðurkenningu fræðsluráðs Hafnarfjarðar árið 2010 fyrir þróunarverkefni um samstarf grunn- og leikskóla. Samstarf milli skólastiganna hefur verið í stöðugri þróun síðan en segja má að nemendur hefji skólagöngu sína við tveggja ára aldur og ljúki henni við sextán ára aldur.

Afrakstur  þróunarverkefnisins birtist í sameiginlegu þemastarfi tvisvar á ári og skipulögðu samstarfi elstu barna leikskólans og 1. bekkja tvisvar í viku auk þess sem þau fara árlega saman í skógræktina og gróðursetja. Vinabekkir eru einnig á milli skólastiganna og þar er t.d. 5. bekkur vinabekkur við yngri deildir leikskólans og 6. bekkur vinnur með elstu börnum leikskólans að útskriftarverkefni Hlíðarbarna á vormánuðum. Þá hafa nemendur í 9. og 10. bekk kost á því að velja að vinna í leikskóla sem hluti af valgreinum unglingastigs.



Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is