Foreldrarölt

Á undanförnum árum hafa foreldrar og forráðamenn í samstarfi við foreldrafélög skólanna, félagsmiðstöðvarnar og lögregluna farið í skipulagt foreldrarölt á kvöldin um helgar. Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivist barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið

Framkvæmd

Foreldraröltið er skipulagt innan hvers foreldrafélags og eru allir foreldrar hvattir til þátttöku. Safnað er nöfnum og símanúmerum þeirra foreldra sem hafa áhuga á að vera með og útbúinn er listi þar sem fólki er raðað niður á helgarnar. Komið er upplýsingum til tengiliða í félagsmiðstöðum og lögreglu um það hverjir eru með foreldrarölt og hvernig því verður háttað.

Þeir foreldrar sem fara á röltið hittast oftast í skólanum, félagsmiðstöðinni eða á lögreglustöðinni á föstudagskvöldi þar sem gjarnan er farið yfir atburði síðustu helga með því að skoða dagbækur sem margir foreldraröltshópar halda. Síðan er gengið um hverfið og komið við á þeim stöðum þar sem unglingar safnast saman svo sem við sjoppur, leiktækjasali, verslunarmiðstöðvar og skóla. Áhersla er lögð á að foreldrar reyni að hafa áhrif á hegðun unglinganna með nærveru sinni en hafi sem minnst bein afskipti af þeim nema nauðsyn beri til.

Hvers vegna að fara á foreldrarölt?

Einn megin kosturinn við foreldraröltið er sá að reynslan hefur sýnt að nálægð fullorðinna hefur yfirleitt þau áhrif að unglingahópurinn leysist upp og ólíklegt er að landa- eða vímuefnasölumenn geri vart við sig þegar foreldrar vakta svæðið. Það getur einnig verið lærdómsríkt og gaman að fara á foreldrarölt, kynnast öðrum foreldrum, heyra viðhorf þeirra og jafnvel komast að því að flestir foreldrar fá að heira rökin "allir mega það".

Með því að fara á foreldrarölt geta foreldrar áttað sig betur á því hvað fer fram í hverfinu á kvöldin um helgar og hvar hætturnar leynast. Þannig sjá þeir oft staði eins og sjoppur og verslanir í nýju ljósi er þeir uppgvöta þau skúmaskot sem geta leynst þar og unglingarnir nota til að neyta áfengis og annarra vímuefna í friði. Þá geta foreldrar fylgst með því hvort sjoppur eru að selja sígarettur til barna undir aldri, hvort börn undir aldri komist inn í spilasali, bari eða skemmtistaði í hverfinu og hvort þeim sé veitt áfengi á þessum stöðum

Markmið foreldraröltsins er margþætt:

  • Að virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga og að koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.
  • Að draga úr áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga.
  • Að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.
  • Að kanna hvað fer fram í hverfinu á kvöldin.
  • Að ná sambandi við þá unglinga sem eru útivið.
  • Að vera til staðar ef unglingar eru illa á sig komnir og þarfnast aðstoðar.
  • Að koma á tengslum milli foreldra í hverfinu sem eiga börn á unglingsaldri.
  • Að sýna unglingum góða fyrirmynd.

Af hverju þú?

Sem betur fer búa flestir unglingar á góðum heimilum og fá það aðhald sem þeim er nauðsynlegt og er gert að fara eftir lögbundnum útivistartíma. Það er því alveg eðlileg spurning, hvers vegna þú átt að standa upp úr sófanum og skilja þín börn eftir heima til að fara út og fylgjast með annarra manna börnum. Svo ekki sé talað um þegar barnið þitt er hugsanlega bara í 1. bekk og langt í að það fari að vera úti um helgar.

Með því að taka þátt ertu að hafa áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börnin í hverfinu, þín börn þar með talin, búa í. Því færri sem nota vímuefni, leggja í einelti eða beita ofbeldi því betra og öruggara er hverfið okkar. Við berum öll ábyrgð á okkar nánast umhverfi og við eigum að sýna þeim sem eiga í vanda að okkur sé ekki saman. Með því að vera sýnileg getum við því brotið upp óæskilegar hópamyndanir sem huganlega gætu haft áhrif á þitt barn.

Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnistu líka fleiri foreldrum og hverfinu sem þú býrð í á nýjan hátt.

Foreldrar sem taka þátt í foreldraröltinu geta oft bent á ýmislegt sem betur má fara í hverfinu, t.d. hvar eru sprungnar perur, hvar þarf að lappa upp á bekki eða gera við brotnar girðingar. Þessum ábendingum má koma áleiðis til viðeigandi aðila. Þar að auki ætti hvert foreldri ekki að þurfa að rölta nema 1-2 yfir skólaárið ef allir taka þátt og það ráða nú flestir við það.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is