Foreldrarölt

Á undanförnum árum hafa foreldrar og forráðamenn í samstarfi við foreldrafélög skólanna, félagsmiðstöðvarnar og lögregluna farið í skipulagt foreldrarölt á kvöldin um helgar. Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivist barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.

Á undanförnum árum hafa foreldrar og forráðamenn í samstarfi við foreldrafélög skólanna, félagsmiðstöðvarnar og lögregluna farið í skipulagt foreldrarölt á kvöldin um helgar. Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivist barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.

Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnist þú öðrum foreldrum og hverfinu, styrkir tengslanet og auðveldar samskipti foreldra/forsjáraðila, hefur áhrif á góðan hverfisbrag og það félagslega umhverfi sem börnin okkar og unglingar búa í.

Besta forvörn óæskilegrar hópamyndunar unglinga er sýnileiki fullorðinna og með virku foreldrarölti minnka líkur á hópamyndunum, notkun vímuefna, eineltis og ofbeldis. Allir þessir hlutir ógna öryggi hverfisins okkar, sem hefur bein eða óbein áhrif á þitt barn.

Foreldraröltið er frábært tækifæri til að virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga, búa til tengslanet þeirra á milli og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga að loknum lögbundnum útivistartíma. Röltið er einnig gott verkfæri til að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Foreldrarölt fer alla jafna fram á föstudagskvöldum en stundum kemur það fyrir að það sé á miðvikudagskvöldum.

Nærvera fullorðinna skiptir máli og hefur áhrif á unga fólkið okkar.
Ósætti milli einstaklinga eða hópa þróast síður yfir í alvarlegt ofbeldi.
Drykkja eða önnur vímuefnaneysla fer síður fram þar sem fullorðnir eru viðstaddir.
Þeir sem selja áfengi eða önnur vímuefni láta síður sjá sig ef fullorðnir eru til staðar.

Hvers vegna foreldrarölt?

Einn megin kosturinn við foreldraröltið er sá að reynslan hefur sýnt að nálægð fullorðinna hefur yfirleitt þau áhrif að unglingahópurinn leysist upp og ólíklegt er að landa- eða vímuefnasölumenn geri vart við sig þegar foreldrar vakta svæðið. Það getur einnig verið lærdómsríkt og gaman að fara á foreldrarölt, kynnast öðrum foreldrum, heyra viðhorf þeirra og jafnvel komast að því að flestir foreldrar fá að heyra rökin "allir mega það". Það er hlutverk okkar, fullorðna fólksins, að gera það sem við getum til að öllum líði vel og með foreldrarölti er hægt að koma í veg fyrir hópamyndanir, einelti, ógnandi hegðun og slæma umgengni sem hefur neikvæð áhrif á líðan unglinganna í hverfinu.

Með því að fara á foreldrarölt geta foreldrar áttað sig betur á því hvað fer fram í hverfinu á kvöldin um helgar og hvar hætturnar leynast. Þannig sjá þeir oft staði eins og sjoppur og verslanir í nýju ljósi er þeir uppgötva þau skúmaskot sem geta leynst þar og unglingarnir nota til að neyta áfengis og annarra vímuefna í friði. Þá geta foreldrar fylgst með því hvort sjoppur eru að selja sígarettur til barna undir aldri, hvort börn undir aldri komist inn í spilasali, bari eða skemmtistaði í hverfinu og hvort þeim sé veitt áfengi á þessum stöðum.

Markmið með foreldrarölti

  • Að virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga og að koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.
  • Að draga úr áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga.
  • Að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.
  • Að kanna hvað fer fram í hverfinu á kvöldin.
  • Að ná sambandi við þá unglinga sem eru úti við.
  • Að vera til staðar ef unglingar eru illa á sig komnir og þarfnast aðstoðar.
  • Að koma á tengslum milli foreldra í hverfinu sem eiga börn á unglingsaldri.
  • Að sýna unglingum góða fyrirmynd.

Af hverju þú?

Sem betur fer búa flestir unglingar á góðum heimilum og fá það aðhald sem þeim er nauðsynlegt og er gert að fara eftir lögbundnum útivistartíma. Það er því alveg eðlileg spurning, hvers vegna þú átt að standa upp úr sófanum og skilja þín börn eftir heima til að fara út og fylgjast með annarra manna börnum. Svo ekki sé talað um þegar barnið þitt er hugsanlega bara í 1. bekk og langt í að það fari að vera úti um helgar.

Með því að taka þátt ertu að hafa áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börnin í hverfinu, þín börn þar með talin, búa í. Því færri sem nota vímuefni, leggja í einelti eða beita ofbeldi því betra og öruggara er hverfið okkar. Við berum öll ábyrgð á okkar nánast umhverfi og við eigum að sýna þeim sem eiga í vanda að okkur sé ekki sama. Með því að vera sýnileg getum við því brotið upp óæskilegar hópamyndanir sem huganlega gætu haft áhrif á þitt barn.

Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnistu líka fleiri foreldrum og hverfinu sem þú býrð í á nýjan hátt.

Foreldrar sem taka þátt í foreldraröltinu geta oft bent á ýmislegt sem betur má fara í hverfinu, t.d. hvar eru sprungnar perur, hvar þarf að lappa upp á bekki eða gera við brotnar girðingar. Þessum ábendingum má koma áleiðis til viðeigandi aðila. Þar að auki ætti hvert foreldri ekki að þurfa að rölta nema 1-2 yfir skólaárið ef allir taka þátt og það ráða nú flestir við það.

Lögin um útivistartíma kveða á um að börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 20:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, 13-16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir kl. 22:00, nema að þau séu á heimferð frá viðurkenndri skóla-, frístunda- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um 2 klukkustundir. Þessi lög miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Götuviti

Götuvitinn er forvarnarstarf á vegum Hafnarfjarðarbæjar og er í samstarfi við foreldraröltið. Á Götuvita starfa starfsmenn félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar og eru þeir á vakt annan hvern föstudag og bakvakt hinn hvern. Einnig eru vaktir eftir stóra viðburði á vegum félagsmiðstöðvanna.

Hlutverk Götuvitans er að sinna leitarstarfi og miðar að því að finna þá unglinga sem teljast til áhættuhóps og aðstoða þá.

Símanúmer Götuvita er 664-5555.

Framkvæmd

Foreldraröltið er skipulagt af starfsfólki tómstundamiðstöðvar og eru allir foreldrar hvattir til þátttöku. Dagsetningum er raðað niður á árganga og fær hver árgangur 2-3 foreldrarölt fyrir veturinn. Listi er sendur á foreldra þar sem þeir geta skráð sig á þær dagsetningar sem í boði eru. Deildarstjóri tómstundamiðstöðvar heldur utan um skráningar, minnir á foreldraröltið og safnar saman skýrslum eftir foreldraröltið.

Þeir foreldrar sem fara á röltið hittast í Mosanum kl. 21:50 og fá bakpoka með merktum vestum og upplýsingum um röltið. Miðað er við að rölt verði á föstudagskvöldum og sé virkt í 1-2 klst., en þó má skipta út dögum eftir hentugleika, t.d. þegar ball eða annar stór viðburður er á miðvikudegi. Mosinn lokar kl. 22:00 svo það er hægt að sækja töskuna frá kl. 08:00 um morguninn ef viðkomandi kemst ekki fyrir þann tíma.

Þegar farið er af stað í foreldrarölt og komið til baka er mikilvægt að tilkynna Götuvita það með sms í síma 664-5555. "Foreldrarölt Mosans og Hraunvallaskóla er farið af stað" og "Foreldrarölti Mosans og Hraunvallaskóla er lokið".

Helstu staðirnir sem þarf að skoða eru t.d. svæðið í kringum Ásvelli og Bónus, leikskólalóðir við Hraunvallaleikskóla, Bjarkalund og Hamravelli, trjálundur við Ástjörn og undirgöng undir Reykjanesbraut , Ásbraut (milli Kvistavalla og Hnoðravalla) og við Hamratorg.

Skila þarf töskunni á skrifstofu Mosans á mánudagsmorgni.

Áhersla er lögð á að foreldrar reyni að hafa áhrif á hegðun unglinganna með nærveru sinni en hafi sem minnst bein afskipti af þeim nema nauðsyn beri til. Endilega spjallið vinalega við unglingana, og hvetjið þá til að fara heim því útivistartíminn sé liðinn.

Ef þið verðið var við t.d. ofbeldi, vímuefnaneyslu og/eða sölu eða eitthvað annað ólöglegt skal hringja á 112 og fá samband við lögreglu. Mjög gott er að kynna sig sem hluta af foreldrarölti Mosans og Hraunvallaskóla. Foreldrarölt er ekki með inngripsvald og ef þið gefið ykkur á tal við einhvern er mikilvægt að þið gangið ekki inn í aðstæður með offorsi eða valdi heldur beitið samskiptafærni og leyfið svo lögreglu að sinna sínu starfi.

Mikilvægt er að þið séuð til taks ef unglingar þurfa á ykkur að halda og við minnum á að hlýja og umhyggja skal alltaf höfð að leiðarljósi ef þið hafið afskipti af hópum eða einstaklingum.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar og við minnum á að þið eruð bundin trúnaði um þau mál sem koma upp. Mikilvægt er að tilkynna til viðeigandi stofnana, lögreglu, barnaverndar, skóla eða félagsmiðstöðvar, ef alvarleg atvik koma upp.

Foreldrarölt 2022-2023

Foreldrarolt
Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is