Skólinn

Vinátta - samvinna - ábyrgð

Hraunvallaskóli starfar eftir hugmyndafræði opna skólans og er byggingin hönnuð með það í huga. Kennsla er miðuð við að mæta ólíkum þörfum einstaklinga sem setja sér eigin námsmarkmið, læra að skipuleggja nám sitt sjálfir og meta árangur sinn. Í kennsluskipulagi er lögð áhersla á skipulag sem byggir á hópavinnu, þemanámi, einstaklingsvinnu, þrautalausnum, gagnrýnni hugsun og færni nemenda til að afla sér þekkingar og nýta sér nýjustu upplýsinga- og samskiptatækni í því skyni. Kennarar vinna saman í teymum í kennslustundum og við skipulagningu og undirbúning kennslunnar. Nemendur í sama árgangi eru saman í skólastofu í umsjónarhópum með sameiginlega umsjónarkennara og heimasvæði. 

Hraunvallaskóli hefur þá sérstöðu að innan veggja hans er rekinn bæði leik- og grunnskóli. Í raun má segja að nemendur hefji skólagöngu sína átján mánaða í Hraunvallaskóla og ljúki henni við sextán ára aldur. Leik- og grunnskóli vinna náið saman m.a. með samstarfi milli leikskólakennara sem hafa umsjón með elstu börnunum í leikskóla og grunnskólakennara. Stjórnun og rekstur er aðskilinn milli skólastiganna og því hafa bæði stigin sinn skólastjóra. Skólastjóri grunnskólans er Lars Jóhann Imsland Hilmarsson og hefur hann starfað við skólann frá  apríl 2011. Skólastjóri leikskólans er Guðbjörg Hjaltadóttir en hún hefur starfað við skólann frá ágúst 2019. 

Grunnskólahluti Hraunvallaskóla  tók til starfa haustið 2005 í bráðabirgðahúsnæði að Ásvöllum í Hafnarfirði. Þá voru um 90 nemendur í 1. – 4. bekk og 14 starfsmenn í skólanum. Haustið 2006 var fyrsti áfangi skólabyggingarinnar tilbúinn að Drekavöllum 9 og fluttist starfsemin þangað. Nemendum hafði fjölgað töluvert og voru þá orðnir um 260 í 1. – 7. bekk. Það sama ár hóf leikskólinn starfsemi sína með um 100 nemendur í fjórum deildum. Samhliða hófst samstarf milli skólastiganna sem hefur verið í stöðugri þróun síðan.  Í ágúst 2008 var þriðji og síðasti áfangi skólabyggingarinnar afhentur en þá voru skráðir um 480 nemendur í 1. – 9. bekk í grunnskólanum og starfsmenn þar komnir yfir 70. Vorið 2010 var í fyrsta skipti útskrifaður 10. bekkur frá skólanum. Var það sögulegur áfangi í starfi skólans.  Nemendafjöldi var vaxandi gegnum árin og fór mest í tæplega 900 nemendur en heldur hefur dregið úr fjölda hin síðustu ár og skólaárið 2022-2023 voru þeir rétt undir 600.   


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is