Teymiskennsla

Kennarateymi hafa komið fram sem vinsæl leið til að bæta skólastarfið. Samstarf og samábyrgð er talin ein af styrkari stoðum skólaþróunar og mikil auðlind sem getur stuðlað að auknum árangri nemenda og kennara. Þar sem gott samstarf er og kennarar sameina og samhæfa krafta sína leiðir það til breyttra vinnubragða, aukinnar þekkingar, bættrar líðan og betri félagslegrar stöðu allra í skólanum. Teymiskennsla gefur ótal möguleika sem ekki eru fyrir hendi þegar kennsluskipulag er með hefðbundnum hætti þar sem hver kennari kennir sínum bekk.

Teymiskennsla er hluti af teymisvinnu en nær eingöngu til kennara sem kenna saman einum nemendahópi. Um er að ræða langvarandi og skuldbindandi samvinnu þar sem tveir eða fleiri kennarar bera sameiginlega ábyrgð á námi og kennslu, líðan nemenda, daglegum samskiptum og samstarfi. Teymiskennslan er talin góð leið til að þróa kennsluhætti í átt að einstaklingsmiðuðu námi því hún býður upp á meiri sveigjanleika í kennsluaðferðum sem hjálpar kennurum að bregðast við einstaklingsbundnum þörfum nemanda.

Góð og árangursrík teymiskennsla tekur tíma að þróast. Ólíkir einstaklingar auðga teymi með því að ýta undir skapandi hugsun. Mikilvægt er að allar raddir innan teymis fái hljómgrunn því allir hafi eitthvað fram að færa og gegna mismunandi hlutverki innan teymisins. Helstu kostir teymiskennslu eru sameiginleg ábyrgð, stuðningur, skipulag og vinnuhagræðing þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Teymiskennsla minnkar líkur á einangrun kennara auk þess sem teymismeðlimir græða bæði faglega og hugmyndalega á vinnunni. Helstu ókostir teymiskennslu eru fleiri fundir, flóknara skipulag og erfiðara er að bregðast við áhugaverðum aðstæðum.

Í hnotskurn fyrir nemendur:

 • Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni í verkefnum
 • Hægt að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda
 • Fleiri kennarar á svæðinu til að aðstoða nemendur
 • Aðstæðum sem koma upp á er hægt að sinna strax, nemendur síður skildir eftir einir.
 • Félags- tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem allir þekkja nemandann
 • Nemendur tengjast fleiri kennurum, hafa fleiri til að leita til með ráðleggingar og aðstoð
 • Nemendur geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifa jákvæða fyrirmynd í samskiptum fullorðinna.
 • Öryggið er fyrir hendi þótt einn kennara vanti
 • Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
 • Námsmat sanngjarnara þar sem fleiri koma að því - betur sjá augu en auga
 • Fjölbreyttari félagahópur og getur leitt til meiri samheldni innan nemendahópsins

Í hnotskurn fyrir kennara:

 • Meira samstarf, skemmtilegra í vinnunni, minni einangrun
 • Samvinna og stuðningur, ekki síst við erfið samskipti og agamál
 • Kennarar fá mikinn stuðning frá hverjum örðum við markmiðsgerð og val aðferða og leiða
 • Kennarar geta nýtt mismunandi hæfileika sína eftir því sem við á
 • Meiri líkur á fjölbreyttari vinnubrögðum og aðferðum
 • Vinnuhagræðing / verkaskipting / álagið dreifist
 • Hægt er að bregðast strax við aðstæðum sem koma upp
 • Fjölbreyttari sýn á nemendur
 • Námsmat samræmdara
 • Kennarar læra hver af öðrum
 • Unnið eftir námsáætlun eins og hægt er þó einn kennara vanti
 • Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni

Verkáætlun um teymisvinnu í Hraunvallaskóla

Hraunvallaskóli hefur gert sér verkáætlun um teymisvinnu sem öll kennsluteymi skólans vinna í upphafi skólaárs. Markmið vinnunnar er fyrst og fremst að teymin setji sér grunnreglur, samræmi og þekki einnig áherslur og væntingar meðlima. Með því að fara sameiginlega í gegnum þætti eins og kennsluskipulag, samstarf og fundarmenningu styrkjum við samstarfið og tryggjum það að teymin nái að þroskast og dafna.

Helstu kennsluteymi í Hraunvallaskóla eru árgangateymi, list- og verkgreinateymi, íþróttakennarateymi, stoðþjónustuteymi, ÍSAT teymi, Fjölgreinadeildarteymi og stjórnendateymi.

Gott samstarf í teymum er forsenda þess að teymið nái árangri og er lykilinn að árangri nemenda. Að þróa áfram faglegt samstarf krefst þess að allir í teyminu leggi sig fram í vinnu og leitist við að sjá styrkleika allra þátttakenda í teyminu.

Kennaraþrenna - Teymiskennsla í 1.-7. bekk í Hraunvallaskóla

Í Hraunvallaskóla samanstanda árgangateymin af þremur umsjónarkennurum í 1.-7. bekk. Unnið er með árganginn sem einn hóp með þremur umsjónarkennurum sem vinna saman sem teymi við undirbúning og framkvæmd kennslu en nemendahópnum er skipt í mismunandi hópa á svæðinu.

Umsjónarkennarar í sama árgangi vinna saman að öllum undirbúningi fyrir sinn árgang. Það er til að tryggja að öllum nemendum standi til boða sambærileg námstækifæri og einnig til að efla faglega umræðu og ígrundun kennara og nýta örugglega styrkleika hvers og eins þannig að allur nemendahópurinn njóti. Með kennaraþrennu og paraumsjón er verið að reyna að jafna álag á kennara og auka sveigjanleika í skipulagningu. Þetta fyrirkomulag gefur nemendum möguleika á að kynnast fleiri félögum og auka þannig færni þeirra á vinnu verkefna með ólíkum hópum.

Meginmarkmið:

 • Að efla samvinnu og samstarf umsjónarkennara í árgangi
 • Að efla samvinnu kennara og nemenda árgangsins
 • Að efla samvinnu nemenda í árganginum
 • Að auka öryggi og vellíðan nemenda
 • Að nýta mismunandi styrkleika kennara betur
 • Að jafna álag á kennara vegna ,,krefjandi“ verkefna/samskipta
 • Að skapa meiri sveiganleika í útfærslu hópa og samvinnu nemenda
 • Að efla samstarf kennara í teymi við foreldra í árgangi.

Hver kennari er tengiliður við heimili ákveðins hluta hópsins og er umsjónarkennari þeirra nemenda. Í daglegu starfi er nemendum í árgangi skipt upp í mismunandi hópa eftir viðfangsefnum, náms- og/eða félagslegum þörfum. Kennarar bera því sameiginlega ábyrgð á námsframvindu og velferð allra nemenda samkvæmt Aðalnámskrá.

Námsmat, röðun í námshópa og skipulag kennslu þvert á árganginn er unnið sameiginlega af umsjónarkennurum, sérkennurum, kennurum nemenda með íslensku sem annað tungumál (ÍSAT) og þroskaþjálfum eftir því sem við á. Sérkennari, ÍSAT kennari og/eða þroskaþjálfi geta ýmist stutt við nemendur sína inni á kennslusvæði með umsjónarhópnum eða í sérrými þar sem unnið er að sérstökum verkefnum. Það er ávallt sameiginleg ákvörðun umsjónarkennara og viðkomandi fagaðila hvor leiðin er valin hverju sinni. Þetta fyrirkomulag er ákveðið á vikulegum samráðsfundum út frá viðfangsefnum næstu viku með hagsmuni nemandans að leiðarljósi. Þannig tekst teymið saman á við verkefni, deilir undirbúningi og ábyrgð með það að markmiði að styrkleikar allra í teyminu nýtist til fulls í þágu nemenda. Lögð er áhersla á að kennarar í teymi styðji hvern annan í samskiptum sem snúa að nemendum og foreldrum t.d. við undirbúning eða framkvæmd funda. 


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is