Frá skólastjóra

23.8.2021

Kæru foreldrar/forsjáraðilar

Skólinn verður settur á morgun, þriðjudaginn 24. ágúst. Undirbúningur skólastarfs gekk vel á skipulagsdögum og er starfsfólk eftirvæntingarfullt að starfa með nemendum í vetur. Komandi skólaár stunda um 620 nemendur nám við skólann. Fjöldi umsjónarbekkja er nú 30 og meðal bekkjarstærð er um 21 nemandi líkt og verið hefur síðastliðin ár.

Skólasetning verður án foreldra/forsjáraðila þetta skólaárið.

· kl. 08:30 8., 9. og 10. bekkur - nemendur mæta beint í sína heimastofu

· kl. 09:00 6. og 7. bekkur - nemendur mæta beint á sitt heimasvæði

· kl. 09:30 2. og 3. bekkur - nemendur mæta beint á sitt heimasvæði

· kl. 10:30 4. og 5. bekkur - nemendur mæta beint á sitt heimasvæði

Nemendur í 1. bekk koma með foreldri/forsjáraðila (aðeins einn aðili) í viðtal til umsjónarkennara 24. ágúst. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá kl. 08:15/08:30 miðvikudaginn 25. ágúst.

Ef nemendur eru óvissir hvar þeirra heimasvæði eða stofa er þá verðum við hér á göngum skólans þeim til aðstoðar.

Kennsla hefst síðan samkvæmt stundatöflu miðvikudaginn 25. ágúst. Mikilvægt er að skoða stundatöfluna vel og taka með íþrótta- eða sundföt ef við á.

Í lok þessarar viku kemur síðan póstur frá okkur um það sem er framundan. Við byrjuðum á þessum póstum á síðasta skólaári og hvetjum ykkur til að lesa þá vel og tileinka ykkur þær upplýsingar sem tilheyra ykkar barni. Þarna eru líka hlutir sem þið getið rætt við ykkar barn og skapað þannig umræðugrundvöll um það sem er framundan.

Ráðstafanir út af covid

Það er mikilvægt að við hjálpumst að og hlúum vel að því veigamikla starfi sem fram fer í Hraunvallaskóla og reynum eins og hægt er að koma í veg fyrir að röskun verði á starfinu út af Covid-19. Foreldrar/forsjáraðilar eru því vinsamlegast beðnir að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins eitt foreldri/forsjáraðili með nemanda. Allir utanaðkomandi sem koma inn í skólann þurfa að bera grímu, gæta að 1M reglunni og persónulegum sóttvarnaraðgerðum líkt og handþvotti og sprittun.

Búið er að grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart starfsmönnum en um starfsmenn í skólastarfi gildir 1M reglan og grímuskylda á ákveðnum svæðum. Starfsmenn þurfa auk þess að gæta mjög vel að persónulegum sóttvarnaraðgerðum líkt og handþvotti og sprittun. Búið er að auka við þrif á kennslusvæðum auk þess sem starfsmenn skólans sótthreinsa sameiginlega snertifleti skipulega.

Reglur um nálægðartakmarkanir gilda ekki um nemendur og því er skólastarfið ekki skert að neinu leyti. Aftur á móti er vel gætt að sóttvarnaraðgerðum fyrir nemendur líkt og handþvotti, sprittun og þrifum á milli hópa.

Það er mikilvægt að foreldrar/forsjáraðilar sendi ekki börn sín í skólann séu þau með einkenni sem passa við Covid-19. Ávallt skal leita ráða hjá heilsugæslu komi upp grunur um Covid-19 smit.

Ef foreldrar og nemendur eru nýkomnir frá útlöndum er mikilvægt að fylgja þeim reglum sem eru í gildi á hverjum tíma, núna á að fara í hrað-/PCR-próf innan 48 klst. eftir komu og ekki koma í skólann nema neikvæð niðurstaða hafi komið úr prófinu. Það sama gildir um starfsfólk skóla. Sýna þarf niðurstöður úr hrað-/PCR-prófi við komuna í skólann eða með því að senda á hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is

Hjálpumst að við að virða samfélagssáttmálann og munum að við erum öll almannavarnir – og verðum það áfram: https://www.covid.is/samfelagssattmali. Nánar um þetta á https://www.covid.is/.

Velferð og hugarfar

Það er mikilvægt að foreldrar/forsjáraðilar komi á reglu og rútínu hjá börnum sínum þegar skólinn byrjar á ný. Hver nemandi þarf nægan svefn og góða næringu því nám og langur skóladagur krefst mikillar orku og þá er mikilvægt að vera úthvíldur. Eitt hefur ekki breyst í aldanna rás, en það er að hvert barn þarfnast ástar, hlýju og umhyggju. Ég hvet foreldra/forsjáraðila til að veita skólagöngu barna sinna athygli, spyrja hvað var skemmtilegast í dag o.s.frv. Hér er vænlegt að vera hvetjandi gagnvart lestri og námi almennt. Spyrjið með jákvæðni að leiðarljósi. Jákvætt hugarfar hefur jákvæð áhrif á nemendur.

Hlutverk foreldra/forsjáraðila er mikilvægt

Skólaforeldrar eru stór hluti af skólasamfélaginu. Við eigum gott samstarf við stjórn foreldrafélags skólans og væntum mikils af góðu samstarfi við alla foreldra/forsjáraðila. Viðhorf foreldra/forsjáraðila er mikilvægur stuðningur við nám og þroska nemenda skólans. Í Hraunvallaskóla væntum við árangurs af nemendum og starfsfólki. Því er hjálplegt að foreldrar/forsjáraðilar hvetji barnið til þess að sýna metnað, seiglu, sköpun, sjálfstæði og útsjónarsemi. Aðstoðið, leiðbeinið, hjálpið, léttið undir en umfram allt, verið til staðar.

Skólamáltíðir

Fyrirkomulag á skólamáltíðum verður með sama hætti og í fyrra. Hægt er að skrá sig í mat á www.skolamatur.is. Við hvetjum ykkur til að nýta þessa þjónustu sem og hafragrautinn sem í boði er í matsalnum í upphafi skóladags. Ekki má gleyma því að einnig er hægt að vera í ávaxta-/grænmetisáskrift hjá Skólamat. Ef nemendur eru ekki í mataráskrift þá er mikilvægt að vera með hollt og gott nesti og munum að allt nesti sem er ígildi sælgætis er bannað. Það á líka við um orkudrykki.

Mentor

Það er okkur mikilvægt að upplýsingar um forsjáraðila séu réttar í Mentor. Því viljum við biðja alla að líta inn á Mentor og kanna hvort allt sé rétt þar inni, heimilisföng, netföng, símanúmer og þess háttar. Við minnum líka á Mentorappið sem er bæði foreldra- og nemendavænt.

Skólakynningar

Vegna ástandsins í samfélaginu verða skólakynningar að öllum líkindum með rafrænum hætti að þessu sinni. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið koma fljótlega.

Samræmd próf í haust

Það verða ekki samræmd próf í 4. og 7. bekk í haust eins og undanfarin ár. Nemendur í þessum árgöngum og einnig í 9. bekk geta tekið ný hæfnimiðuð samræmd próf í vor. Þessi fyrirlögn verður fyrsta skrefið í átt að nýju fyrirkomulagi samræmds námsmats fyrir nemendur í grunnskólum. Meginmarkmið þess er að veita nemendum gagnlegar upplýsingar um námslega stöðu þeirra og vera kennurum, nemendum og foreldrum til leiðsagnar um áherslur í námi. Sjá nánar hér: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=eb1afa72-da74-11eb-813d-005056bc8c60

Að lokum

Við óskum að endingu öllum í skólasamfélaginu okkar í Hraunvallaskóla farsældar á skólaárinu. Munum að sýna vináttu, samvinnu og ábyrgð. Megum við öll eiga ánægjulegt skólaár framundan, þar sem allir eru staðráðnir í að gera sitt besta!

Kær kveðja, Lars Jóhann Imsland skólastjóri


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is