Frá skólastjóra

17.1.2022

Eins og kynnt var á föstudaginn þá eru óbreyttar sóttvarnareglur í skólum. Við höldum því okkar striki. Meginreglurnar eru þær að 50 nemendur geta verið í sama rými, 20 starfsmenn geta verið í sama rými, grímuskylda á starfsmenn í opnum rýmum og ef ekki tekst að viðhafa 2 metra frá öðru starfsfólki og nemendum, nemendur eru undanþegnir fjöldatakmörkunum á göngum og í frímínútum. Búið er að opna matsalinn og skipta honum í tvö hólf. Spritt er aðgengilegt í öllum rýmum skólans o.fl. Reglurnar gilda til 2. febrúar nk.

Róðurinn þyngdist verulega í síðustu viku en um 20-30% nemenda hafa verið frá á hverju degi auk þess sem vantað hefur 20- 30 starfsmenn dag hvern. Okkur hefur samt tekist að halda úti nokkuð eðlilegu skólastarfi en aðstæður eru vissulega krefjandi.

Ég minni á mikilvægi þess að fara með börnin í skimun ef einkenni gera vart við sig. Ekki senda börn í skólann með einkenni nema búið sé að ganga úr skugga um að það sé ekki Covid. Ef Covid er staðfest hjá barni og foreldrar fá upplýsingar um það eftir 15:30 eða að smit er staðfest um helgi er mikilvægt að senda póst á skólastjórnanda. Á virkum degi, fyrir 15:30, á að hafa samband við skrifstofu, umsjónarkennara og/eða skólastjórnanda. Smitrakningarteymið hefur ekki tíma til að láta okkur vita strax og því mikilvægt að foreldrar láti skólann strax vita. Einnig er gott að fá upplýsingar um það ef það kemur jákvætt úr hraðprófi. Þá gefst tækifæri til að undirbúa smitrakningu og málin ganga fljótar fyrir sig.

Reglum um sóttkví og einangrun hefur verið breytt og ég hvet ykkur til að kynna ykkur þær reglur. Sjá hér fyrir neðan.
Sóttkví: https://www.covid.is/undirflokkar/sottkvi
Einangrun: https://www.covid.is/undirflokkar/einkenni

Að lokum langar mig að senda hlýjar kveðjur til þeirra sem eru í einangrun eða sóttkví. Við erum í þessu saman og saman komumst við í gegnum þetta.

Með bestu kveðju, Lars Jóhann Imsland skólastjóri


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is