Framundan í apríl

9.4.2021

Nú er aprílmánuður kominn á fullt og ýmislegt framundan. Sumum atburðum þurfum við því miður að aflýsa, öðrum höfum við frestað og á meðan reynum við að halda í það sem við getum. Við leggjum miklar áherslur á sóttvarnir þ.e. handþvott, spritt og þrif milli hópa og er frábært að sjá hve nemendur eru duglegir að hjálpa okkur þar. Við höfum gert ýmsar breytingar hér innanhúss til þess að fylgja eftir þeim takmörkunum sem nú eru í gildi. Mikilvægast er að öllum líði vel bæði nemendum og starfsfólki. Við höldum áfram að gera þetta saman því þannig vinnum við þessa baráttu.

Þann 14. apríl ætti árshátíð unglingadeildar að fara fram. Sökum takmarkanna þurfum við að fresta henni en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hún fari fram síðar. Þar sem 14. apríl er skertur skóladagur í unglingadeild samkvæmt skóladagatali vegna árshátíðar, þá ætla nemendur samt sem áður að gera sér glaðan dag með því að spila félagsvist. Við hvetjum alla foreldra/forsjáraðila og nemendur til að rifja upp það skemmtilega spil saman og eiga notalega kvöldstund. Nemendur mæta kl. 09:00 á þessum degi og skóladegi lýkur kl. 11:00. Í 1.-7. bekk er hefðbundin skóladagur.

Ákveðið hefur verið að fella niður áætlaðar skíðaferðir í mið- og unglingadeild sökum takmarkanna. Við skulum láta okkur hlakka til að ári þegar allir verða bólusettir og tilbúnir í brekkurnar.

Ef takmarkanirnar sem nú eru halda sér og verða ekki stífari þá mun 7. bekkur fara í Vatnaskóg dagana 19.-21. apríl. Þessir nemendur komust ekki á Reyki og því er óskandi að þessi ferð verði að veruleika. Nánari upplýsingar um ferðina verða sendar á viðkomandi foreldra/forsjáraðila þegar nær dregur.

Samræmd próf í 9. bekk verða dagana 19.-21. apríl fyrir þá sem hafa valið að taka þau. Eins og nemendur í 9. bekk vita þá voru samræmdu prófin felld niður eftir að tæknilegir örðugleikar komu fram í íslensku prófinu sem var fyrsta prófið. Nemendur fengu í framhaldi af því að velja hvort þeir tækju prófin eða ekki. Nánari upplýsingar verða sendar á þá sem völdu að taka prófin.

Lestrarátakið Drekasprettur hefur verið einn af vorboðunum hjá okkur hér í Hraunvallaskóla undanfarin ár. Hann hefst formlega í yngri deild og unglingadeild mánudaginn 19. apríl og stendur til sunnudagsins 2. maí. Hjá miðdeild stendur spretturinn frá föstudeginum 23. apríl til og með sunnudagsins 2. maí þar sem 7. bekkur verður í skólabúðum hluta af fyrri vikunni ef allt gengur að óskum.

Helstu markmið lestrarátaksins eru;
· að þjálfa lestur
· að auka almennan íslenskan orðaforða
· að efla áhuga á lestri.

Allur íslenskur texti er gjaldgengur í lestrarátakinu; sögubækur, teiknimyndasögur, dagblöð og tímarit. Æskilegt er að nemendur lesi fjölbreytt efni og reyni að finna út hvers konar lesefni þeim líkar best. Þeir sem eldri eru, kennarar og forráðamenn/forsjáraðilar, hafa það mikilvæga hlutverk að hjálpa til við að koma með hugmyndir, kynna mismunandi lesefni fyrir krökkunum og hvetja þá með ráðum og dáð. Nánari kynning á átakinu verður send heim þegar nær dregur.

Annars erum við bara brött hér í Hraunvallaskóla og höldum ótrauð áfram að vinna saman í að gera skólastarfið skemmtilegt og spennandi þrátt fyrir takmarkanir.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is