Framundan í febrúar

5.2.2021

Innilegar þakkir til ykkar fyrir okkar fyrsta rafræna samtalsdag sem svo sannarlega gekk ljómandi vel með ykkar jákvæða hugarfari. Ástand þjóðfélagsins er búið að koma okkur af stað í að gera hluti sem við höfum ekki gert áður og viljum við meina að það hafi að mörgu leyti eflt okkar skólastarf hér í Hraunvallaskóla.

Í febrúar er margt framundan og er félagsmiðstöðin okkar Mosinn að koma sterk inn eftir hlé þar sem núna má hafa viðburði. Þann 8. febrúar verður fyrirlestur sem heitir ”Karlmennskan” í Mosanum fyrir unglingadeild. Skíðaferðir nemenda í mið- og unglingadeild áttu að vera í þessari viku en hefur verið frestað sökum ástandsins en við erum að vinna í því að fá nýjar dagsetningar og svo vonum við bara að snjórinn verði lengi hjá okkur. Spurningakeppni Hafnarfjarðar fyrir unglingadeild ”Veistu svarið” hófst í gær og komst okkar lið áfram í undanúrslit og keppa í þeim þann 10. febrúar. Keppnin er rafræn og er sýnd í Mosanum, endilega hvetjið nemendur til að koma og horfa á.

Í vikunni 15.-19. febrúar fer 9. bekkur á Laugarvatn. Þessi ferð er ómissandi í þroska og minningabanka hvers nemanda. Undirbúningur gengur vel og nemendur telja niður dagana.

Þann 15. febrúar er bolludagur og mega nemendur koma með bollur að heiman til að gæða sér á í nestinu. Þriðjudaginn 16. febrúar er sprengidagur og þá er baunasúpa í matinn fyrir þá sem eru í áskrift. Miðvikudaginn 17. febrúar er öskudagur. Það er skertur skóladagur í 1.-7. bekk en nemendur í unglingadeild mæta samkvæmt stundatöflu. Skipulag þessa dags í 1.-7. bekk verður öðruvísi en áður að því leyti að hver árgangur verðum með skipulagða dagskrá á sínu heimasvæði. Þannig komum við í veg fyrir að nemendur krossi árganga. Deginum lýkur síðan í hádegismat á pylsum og með því fyrir þá sem eru í áskrift. Skóladegi í 1.-4. bekk lýkur kl. 11:30 hjá þeim sem ekki eru í Hraunseli. Þeir nemendur sem eru í Hraunseli fara beint þangað eftir kennslu. Skóladegi í 5.-7. bekk lýkur kl. 11:15 þennan dag.

Dagana 22.-23. febrúar er vetrarfrí og miðvikudaginn 24. febrúar er skipulagsdagur leik- og grunnskóla í Hafnarfirði. Þá eru nemendur í fríi og Hraunsel lokað. Nemendur koma svo endurnærðir í skólann fimmtudaginn 25. febrúar samkvæmt stundatöflu.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is