Framundan í maí og júní

8.5.2021

Þetta skólaár líður óðfluga og aðeins fimm vikur eftir af þessu lærdómsríka ári. Að venju eru maí og júní fullir skemmtilegra viðburða sem verða tíundaðir hér. Við mælum með að þið gefið ykkur tíma í að lesa vel yfir og skrá hjá ykkur öðruvísi daga. Umsjónarkennarar munu líka minna okkur öll á það sem framundan er.

Mikið er spurt af okkar frábæru nemendum í unglingadeild um árshátíðina. Við erum svo sannarlega ekki búin að fella hana niður og erum að bíða eftir ákjósanlegu tækifæri til að halda hana. Við eigum allan maí inni og eftir því sem samkomutakmörkunum léttir því meira hækkar spennustigið. Við vonum innilega að við getum haldið árshátíð fyrir alla eins og venjulega. Sjáum hvað setur þegar nær dregur júní.

Okkur langar til að minna á hafragrautinn sem er í boði á morgnana fyrir alla nemendur skólans. Opið er frá kl. 07:55-08:30. Tilvalið að fylla sig af góðri næringu fyrir átök dagsins.

Margir árgangar eru farnir að huga að vorferðum. Hefðin hefur verið sú að hver árgangur skipuleggur sína ferð. Stundum eru ferðirnar tengdar við námsefni sem verið er að vinna með hverju sinni og stundum sem uppbrot. Umsjónarkennarar upplýsa ykkur um skipulag þegar nær dregur.

Fimmtudaginn 13. maí er uppstigningadagur og er frí í skólanum og Hraunseli þann dag.

Dagana 17.-20. maí eru námsmatsdagar í unglingadeild. Þá mæta nemendur í skólann kl. 09:00 alla dagana og eru til kl. 13:00. Skipulag daganna er þannig að nemendur byrja í undirbúning fyrir námsmatið og fara síðan í prófin kl. 10:55. Greinarnar skiptast svona niður á dagana:
8. bekkur – mán. íslenska, þri. enska, mið. náttúrufræði og fim. stærðfræði.
9. bekkur – mán. enska, þri. náttúrufræði, mið. stærðfræði og fim. íslenska.
10. bekkur – mán. stærðfræði, þri. íslenska og mið. enska.

Mánudagurinn 24. maí er annar í hvítasunnu og er því frí í skólanum. Þriðjudagurinn 25. maí er skipulagsdagur og eru nemendur því ekki í skólanum þann daginn. Opið er í Hraunseli fyrir alla nemendur í 1.-4. bekk á skipulagsdaginn. Þeir sem ekki eru með fasta viðveru að jafnaði geta skráð börnin sín frá kl. 08:00-13:20. Þeir sem eru með fasta viðveru mega vera sinn skráða tíma. Skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag.

Föstudaginn 28. maí verður árlegur ratleikur settur upp í unglingadeild. Nemendur fá upplýsingar um hann frá sínum umsjónarkennurum.

Dagana 31. maí – 7. júní fer fram hið svokallaða Grúsk Hraunvallaskóla fyrir allan nemendur. Þar vinna nemendur hin ýmsu þemu og áhugasviðsverkefni. Skólastarf er brotið upp og nemendur fá að hluta til frjálsar hendur með hvernig verkin eru unnin en þó með stýringu að einhverju tagi. Í unglingadeild falla niður íþróttir, sund og smiðjur og eru nemendur í skólanum frá kl. 08:30-13:00. Í yngri- og miðdeild er hefðbundinn tími, íþróttir, sund og smiðjur haldast inni þannig að nemendur fá „uppbrot frá uppbrotinu“.

Þriðjudaginn 8. júní er samtalsdagur. Við höfum verið með opið hús á þessum degi fyrir foreldra/forsjáraðila undanfarin ár. Við ætlum að bíða aðeins með að skipuleggja þennan dag þar sem ýmislegt getur breyst á stuttum tíma í þessu Covid-19 ástandi. Þið munuð fá upplýsingar þegar nær dregur. Hraunsel er opið frá kl. 08:00-17:00 fyrir þá sem eiga fasta viðveru þar og skrá þarf sérstaklega fyrir þennan dag.

Miðvikudaginn 9. júní er íþróttadagur hjá okkur í 1.-10. bekk. Að öðru leyti er þetta hefðbundinn skóladagur nema hjá unglingadeild en þar er dagurinn skertur þ.e. nemendur eru í skólanum frá kl. 08:30-11:15.

Skólaslit og útskrift eru hjá 10. bekk seinnipartinn þann 9. júní. Hjá 1.-9. bekk eru skólaslit fimmtudaginn 10. júní. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag kemur þegar nær dregur.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is