Fréttir úr skólastarfinu

20.10.2020

Við viljum þakka fyrir þátttöku foreldra/forsjáraðila á samtalsdaginn. Það var mikilvægt að heyra raddir foreldra/forsjárað9ila á skólastarfinu. Nemendur hafa staðið sig afar vel það sem af er skólaári og eiga hrós skilið fyrir langlundargeð á þessum sérstöku tímum. Túlkaviðtöl verða mánudaginn 26. okt. og verður nánara skipulag sent til þeirra sem málið varðar.

Nú er ljóst að við verðum í samskonar fyrirkomulagi næstu 2 vikurnar og verður því íþrótta- og sundkennsla utandyra eins og áður. Síðustu tvær vikur í kennslu utandyra gengu mjög vel og aðeins einu sinni þurftum við að flytja kennsluna inn. Við viljum ítreka að nemendur komi klæddir eftir veðri, það er farið að kólna en við látum það ekki á okkur fá. Einnig hvetjum við nemendur til að mæta í þægilegum fötum á íþrótta- og sunddögum þannig að nemendur nái að hreyfa sig óhindrað.

Á morgun miðvikudag ætlum við að hafa íþróttahúsið opið frá kl. 07:45-15:00 og raða þar upp óskilamunum. Inngangur í íþróttahúsið er á Drekavöllum, ekki má fara inn í skólann sjálfan. Mikilvægt er að allir sem fara þar inn séu með grímur og hanska.

Framundan er vetrarfrí sem er kærkomið fyrir alla. Á miðvikudaginn er skertur skóladagur þar sem nemendur eru með umsjónarkennara sínum eins og hér segir, 1.-4. bekkur frá kl. 08:15-11:10, 5.-7. bekkur frá kl. 08:15-11:25 og unglingadeild frá kl. 08:30-10:35. Hraunsel er opið frá kl. 11:00 fyrir þá sem eru með fastan viðverutíma. Á fimmtudag og föstudag er vetrarfrí og nemendur því í fríi og Hraunsel lokað. Mánudaginn 26. okt. er skipulagsdagur og því eru nemendur ekki í skólanum þann dag. Hraunsel er opið frá kl. 08:00-17:00 fyrir þá sem hafa skráð börnin sín annaðhvort í gegnum Völu eða sent tölvupóst á unabjörk@hraunvallaskoli.is.

Annars hvetjum við ykkur til þess að njóta vetrarfrísins og gera eitthvað skemmtilegt saman. Hvað er betra en samvera með yndislegu börnunum okkar.

Njótið dagsins og verið góð við hvort annað.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is