Fullveldisdagurinn 1. des.

30.11.2021

Á morgun 1. des. er fullveldisdagurinn og ætlum við í Hraunvallaskóla að halda hann hátíðlegan með því að mæta  spariklædd í skólann. Nemendur fá kynningu á hvað gerðist þennan dag og af hverju við viljum fagna honum. Hér eru nokkrir fróðleiksmolar um daginn.

Fullveldisdagurinn er svo nefndur til minningar um að þann 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.

Lítið var samt um hátíðahöld þegar upp á hann var haldið í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Katla gaus einnig frá 12. október til 4. nóvember og seint í október barst drepsótt sú sem kölluð var spænska veikin til landsins og létust hundruð manna. Loks brast á nýtt kuldakast þegar veikin stóð sem hæst og ekki þótti ráðlegt að hafa langa útisamkomu við þessar aðstæður.

Dagurinn varð þó ekki þjóðhátíðardagur þegar í stað. Fyrstu þrjú árin á eftir var nýi íslenski fáninn að vísu dreginn að hún sumstaðar og kennsluhlé gert í skólum eins og oft tíðkast enn. Árið 1921 var Fálkaorðan stofnuð og á þriðja og fjórða áratugnum var 1. desember oftast valinn til að sæma menn því heiðursmerki. Þá veitir þennan dag forseti Íslands afreksmerki lýðveldisins fyrir björgun úr lífsháska.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is