Glæsilegir fulltrúar Hraunvallaskóla á lokahátíð Stóru upplestrarkeppinnar

13.4.2021

SmasagnasamkeppniGlæsilegir fulltrúar Hraunvallaskóla á lokahátíð Stóru upplestrarkeppinnar

Fulltrúar Hraunvallaskóla í ár voru þau Hekla Katrín Freysdóttir og Sigurður Ísak Hlynsson en allir grunnskólar Hafnarfjarðar senda fulltrúa til keppninnar og koma tveir frá hverjum skóla. Keppendur fluttu brot úr skáldverki Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk en þau voru skáld keppninnar í ár. Allir nemendur fengu viðurkenningu og gjafir fyrir flutning sinn og frammistöðu og hvatningu og hamingjuóskir frá Forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni, Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur skáldi keppninnar og bæjarlistamanni Hafnarfjarðar 2020 sem öll heiðruðu hópinn með nærveru sinni.

Dómnefnd valdi að lokum þrjá bestu fyrirlesarana og veitti þeim sérstaka viðurkenningu. Það voru þau Rán Þórarinsdóttir í Setbergsskóla (1. sæti), Lilja Dís Hjörleifsdóttir í Setbergsskóla (2. sæti) og okkar maður Sigurður Ísak Hlynsson (3. sæti) í Hraunvallaskóla sem þóttu fremst meðal jafningja þetta árið.

Viðurkennin fyrir smásögur

Á hátíðinni voru viðurkenningar veittar fyrir smásagnasamkeppni 8. – 10. bekkja og hlaut Kolbrún Garðarsdóttir í 10. bekk í Hraunvallaskóla fyrsta sætið fyrir söguna Snjókorn sem taka sinn tíma og Marta Björnsdóttir í Öldutúnsskóla annað sætið fyrir söguna Lovísu. Þær Elísa Lana Sigurjónsdóttir í Víðistaðaskóla með söguna Með lífið að veði og Elísa Kristín Böðvarsdóttir í Skarðshlíðarskóla með söguna Flateyri lentu saman í þriðja sæti.

 Snýst ekki um að koma fyrstur í mark

Stóra upplestrarkeppnin snýst ekki um að komast fyrstur í mark heldur um þjálfun og það að vanda sig í upplestri. Ingibjörg Einarsdóttir upphafsmaður Stóru upplestrarkeppninnar hefur fylgt keppninni eftir frá upphafi eða í 25 ár, þróað hana og mótað í virku samstarfi við m.a. sveitarfélög og skólasamfélagið á hverjum stað. Árið í ár er síðasta árið sem Raddir og frumkvöðullinn Ingibjörg sjá um framkvæmdina á keppninni og hátíðinni og tók Ingibjörg á móti þökkum og árnaðaróskum á uppskeruhátíð gærdagsins. Framkvæmdin mun framvegis verða á hendi sveitarfélaganna sjálfra. Hraunvallaskóli þakkar Ingibjörgu fyrir ómetanleg starf sitt í gegnum árin í þágu þessa skemmtilega verkefnis.

Johann-SU

Hekla-SU

Vidurkenning-SU


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is