Jólamánuðurinn

7.12.2020

Nú er árið 2020 aldeilis farið að styttast og jólin framundan. Desember mánuður er ávallt fullur af skemmtilegum verkefnum og reynum við eftir fremsta megni að hafa uppbrot þrátt fyrir þessa einstöku tíma. Við mælum með kaffibolla og smá súkkulaði við lestur þessa pistils.

Frá og með mánudeginum þá fá þeir sem eru í áskrift hjá Skólamat heitan mat í hádeginu. Þeir nemendur sem eru á svæðum inni í skólanum borða á sínum heimasvæðum. Nemendur á Leikvöllum og Fléttuvöllum borða inni í Mosa. Allir þurfa að ná sér í mat inn í matsal og fara með leirtauið þangað aftur þegar þeir eru búnir að borða. Þeir nemendur sem ekki eru í áskrift mega að sjálfsögðu taka með sér nesti og borða með hinum. Þeir komast í örbylgjuofna og samlokurist eins og verið hefur. Nemendur fá tímasetningar á matartímunum frá sínum umsjónarkennurum á mánudaginn.

Hér hægra megin á síðunni er komin hnappur sem heitir „Röskun á skólastarfi“. Þar undir eru tilmæli frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um röskun á skólastarfi vegna óveðurs. Þar er farið yfir ábyrgð foreldra um hvernig brugðist er við veðurviðvörun frá Veðurstofu Íslands og leiðbeiningar til starfsfólks. Við hvetjum ykkur til þess að tileinka ykkur þessar upplýsingar https://www.hraunvallaskoli.is/skolinn/vidbragdsaaetlanir/.

Hour of Code er alþjóðleg kóðunarvika sem verður 7.-13. des. Þetta er árlegur viðburður sem við höfum tekið þátt í undanfarin tvö ár. Þetta er útlistað sem einnar klukkustundar kynning á tölvunarfræði sem er ætlað að svipta hulunni af forritun og sýna að allir geti lært grunnatriðin. Síðustu tvö ár höfum við haft það þannig að eldri nemendur kenna og hjálpa þeim yngri en vegna „lítillar“ veiru þá verður hver og einn árgangur með verkefni við hæfi. Hér er linkur með kynningu á þessu alþjóðlega verkefni sem vert er að skoða: https://youtu.be/KsOIlDT145A" target="_blank">https://youtu.be/KsOIlDT145A.

Hátíðarmatur fyrir nemendur verður miðvikudaginn 16. des í hádeginu. Skólamatur býður upp á kalkúnabringur, hátíðarmeðlæti og sósu ásamt ísblómi í eftirrétt fyrir þá sem eru í áskrift. Þeir sem ekki eru í áskrift geta keypt matarmiða í mötuneytinu í skólanum 6.-12. des. milli kl. 09:00-11:00. Máltíðin kostar 800 krónur og aðeins er tekið við peningum. Ef nemendur eiga nú þegar matarmiða geta þeir skipt út einum miða fyrir hátíðarmiða, það er einnig gert í mötuneytinu.

Jólahald hjá okkur í Hraunvallaskóla verður aðeins frábrugðið þetta árið eins og gefur að skilja og munum við nýta tæknina meira til að halda í ákveðnar hefðir. Jólasamverur yngri og miðdeildar verða fimmtudaginn 10. des. og eru þær rafrænar þar sem við fáum að njóta snilli okkar frábæru tónlistar- og leiklistarkennara.

Undanfarin ár hefur sú hefð verið í Hraunvallaskóla að nemendur skiptast á litlum jólapökkum á stofujólunum síðasta daginn fyrir jólaleyfi. Að betur athuguðu máli og í ljósi aðstæðna höfum við hins vegar ákveðið að aflýsa pakkaleiknum í ár.
Helstu rökin eru út frá sóttvarnarsjónarmiðum. Ekki er heppilegt að nemendur komi með eitthvað að heiman í skólann sem síðan fer inn á annað heimili. Við hér í skólanum viljum heldur ekki skapa ástæðu til að foreldrar þurfi að fara í verslanir að óþörfu.
Að auki er hvatt til þess í samfélaginu almennt að draga úr kostnaði foreldra þar sem búast má við að margir séu verr staddir fjárhagslega fyrir þessi jól vegna heimsfaraldursins.

Þetta árið þurfum við því miður að fella niður jólaböllin hjá nemendum. Við viljum hvetja ykkur foreldra/forsjáraðila til að færa þau heim í stofu í staðinn og taka góðan „swing“ í kringum jólatréð. Á hverju ári setur 5. bekkur upp „Helgileik“, það verður eins í ár nema að hann verður síðan sýndur rafrænt á stofujólum hvers árgangs. Stofujólin verða á neðangreindum tímum og þar verður helgileikurinn sýndur rafrænn, nemendur mega koma með smákökur/sparinesti og drykk (ekki gos eða orkudrykk), lesin verður jólasaga og jafnvel skiptast nemendur á jólakortum.
Að loknum stofujólum eru nemendur komnir í jólafrí.
Stofujólin verða á eftirtöldum tímum:
Fimmtudaginn 17. des. kl. 18:30-20:00 fyrir unglingadeild
Föstudaginn 18. des. kl. 08:30-10:00 fyrir nemendur í 1., 4. og 5. bekk
Föstudaginn 18. des. kl. 09:30-11:00 fyrir nemendur í 2. og 6. Bekk
Föstudaginn 18. des. kl. 10:30-12:00 fyrir nemendur í 3. og 7. bekk

Nemendur mæta síðan endurnærðir aftur í skólann mánudaginn 4. janúar. Nánari skipulag fyrir janúar kemur til ykkar þegar nær dregur.

Munið svo að njóta á þessum dásamlegu dögum sem framundan er


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is