Kynfræðsla í unglingadeild

22.2.2021

Skólar og félagsmiðstöðvar víða um land tileinkuðu viku 6 á árinu 2021 kynfræðslu. Mikil umræða hefur verið hjá nemendum og fagaðilum síðustu ár um skort á kynfræðslu á grunnskólastigi og vöntun á nýju kennsluefni. Í viku 6 var því blásið til sóknar í þessum málum. Á vef Rúv (ungruv.is) voru sett inn fjölmörg ný myndbönd og þættir og norska serían Newton sem framleidd var af NRK var gerð aðgengileg í heild sinni. Þessir þættir fjalla um kynþroskann á hispurslausan hátt og hafa vakið mikið umtal og athygli enda nálgunin ný og fersk.

Í Hraunvallaskóla var ákveðið að taka heila viku í náttúru- og samfélagsgreinum undir kynfræðslu í unglingadeild. Spennandi tækifæri að búa til þemaviku þar sem samtal væri á milli námsgreina og boðið væri upp á mismunandi nálganir og sýn á efnið. Aðaláherslan í 8. og 9. bekk var á norsku þættina um kynþroskann en þættirnir fjalla um þær líkamlegu breytingar sem verða á kynþroskaskeiðinu – vaxtaverki, unglingabólur, aukinn hárvöxt, mútur, breytingar á kynfærum og því hvernig börnin verða til. Kannski mætti frekar kalla þetta kynþroskafræðslu en kynfræðslu en lokaþátturinn í seríunni fjallar samt um kynlíf og sjálfsfróun.

Í 10. bekk var áherslan aðeins meiri á kynfræðsluhlutann enda eru þau lengra komin í kynþroskanum. Ásamt því að horfa á þættina í náttúrugreinum bjuggum við til verkefnabanka á Google Classroom með umræðuverkefnum. Nemendur fengu þjálfun í virkri hlustun sem þykir góð leið til að búa til traust og öryggi í samskiptum og er mælt með að nota í tengslum við kynfræðslu. Æfingarnar í virkri hlustun skiluðu sér þegar kom að hópverkefnum þar sem nemendur ræddu um ýmis mál – allt frá því hvort rétt væri að fagna fyrstu blæðingum stúlkna (líkt og gert er í sumum ríkjum) yfir í hvort typpastærð stráka skipti máli þegar kemur að kynlífi. Einnig var kynþroskinn ræddur – hvað sé erfitt og auðvelt á kynþroskaskeiðinu, sjálfsmyndin – hvernig hún breytist og þróast og svo hugtökin traust og ábyrgð. Umræðurnar voru lifandi og skemmtilegar og greinilegt að nemendum Hraunvallaskóla liggur mikið á hjarta og þeir óhræddir við að ræða ýmis mál sem fá okkur fullorðna fólkið kannski til að roðna aðeins.

Eitt af skemmtilegri verkefnum vikunnar var svo bréf sem nemendurnir skrifuðu til foreldra sinna og settu í umslag en í bréfinu máttu nemendur lýsa því hvernig þeim langar að láta umgangast sig og sinn líkama, hvort þeim finnist þeir fá nægja umhyggju, ást og hrós á heimilinu og hvort þeim langi yfirhöfuð að heyra foreldra sína tala um hvernig lífið var þegar þeir voru yngri. Ekki var skylda að afhenda foreldrum bréfið enda markmiðið fyrst og fremst að fá unglinga til að hugsa um hugtök eins og samskipti og mörk á nýjan hátt. Höfðu nemendur á orði að þeim hefði fundist það valdeflandi að setja niður á blað þessar hugsanir sínar.

Í samfélagsgreinum í 8. og 9. bekk fengu nemendur fyrirlestra frá Ósk Guðmundsdóttur skólahjúkrunarfræðingi Hraunvallaskóla og þeim fyrirlestri var svo fylgt eftir með umræðum og myndböndum af vef Ung Rúv sem fjalla á fyndinn og skemmtilegan hátt um fyrstu skiptin. Myndböndin eru leikin af hópi ungra leikara sem eru vinsælir hjá yngri kynslóðinni og gera létt grín að stressinu sem fylgir fyrsta kossi unglinga eða að losa brjóstahalda í fyrsta skipti. Einnig var horft á viku 6 myndbönd Kolbrúnar Hrund Sigurgeirsdóttur verkefnastýru jafnréttisstofu Reykjavíkur um samskipti og ábyrgð. Unnið var með samtöl eftir áhorf og færðust þau fljótt út í almenn samskipti og virðingu sem krakkarnir sýna hvort öðru dags daglega og hvernig það speglast inn í þeirra persónulíf. Meginþema í umræðum í samfélagsgreinum voru hugtökin „samskipti“ og „virðing“.

Vikan var skemmtileg og gott uppbrot í kennslunni. Upplifun kennara er að það gefi góða raun að taka lengri tíma í kynfræðsluna í stað þess að kenna hana í smáum skömmtum yfir önnina líkt og hefur verið raunin. Með þessu móti myndaðist meira traust í bekkjunum og vandræðalegheitin sem stundum fylgja kynfræðslu voru algjörlega horfin eftir einn, tvo daga. Það var líka frábært að fá loksins nýtt og spennandi kennsluefni í hendurnar. Norsku þættirnir um kynþroskann eru frábærir og hægt að byggja á þeim í 8. – 9. bekk næstu árin. Fyrir 10. bekk eru komin mjög góð myndbönd frá Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, verkefnastýru jafnréttismála hjá Nýsköpunarsmiðju menntamála, þar sem hún fjallar um samskipti í kynlífi, snípinn, smokkinn og sjálfsfróun. Jafnframt eru til flott umræðumyndbönd um kynlíf sem henta vel fyrir 10. bekk þar sem ekki er eins mikil þörf á kynþroskafræðslu eins og á yngri stigum.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is