Samræmdum könnunarprófum aflýst

12.3.2021

Kæru foreldrar/forsjáraðilar

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að aflýsa hefðbundnum samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem ráðgert var að leggja rafrænt fyrir nemendur í 9. bekk í næstu viku. Þessi ákvörðun byggir fyrst og fremst á hagsmunum nemenda og sjónarmiðum skólasamfélagsins.

Annmarkar voru á rafrænni fyrirlögn prófs í íslensku hinn 8. mars og var prófum í ensku og stærðfræði þá frestað um nokkra daga. Að vel athuguðu máli telur Menntamálastofnun ekki öruggt að rafræn fyrirlögn prófanna muni ganga snurðulaust fyrir sig, enda hafi þjónustuaðili prófakerfisins ekki brugðist við aðstæðum með fullnægjandi hætti.

Nemendum verður hins vegar gefið val um að taka könnunarpróf í viðkomandi greinum á tímabilinu 17. mars - 30. apríl nk. Menntamálastofnun ber að tryggja þá framkvæmd. Skipulag fyrirlagnarinnar skal undirbúin í samráði við skólasamfélagið og miðast við lágmarksröskun á skólastarfi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að fyrirlögn samræmdra könnunarprófa verði valkvæð fyrir nemendur í 9. bekk. Ljóst þykir að þjónustuaðili prófakerfisins hefur ekki gert fullnægjandi lagfæringar á kerfinu og því er ekki verjandi að bjóða nemendum upp á próftöku við slíkar aðstæður. Í ljósi þess mun fyrirlögn hinna valkvæðu könnunarprófa fara fram á pappír.

Við í Hraunvallaskóla munum á næstu dögum kalla eftir upplýsingum frá ykkur um hvort barn ykkar kjósi að nýta sér val um að taka samræmd könnunarpróf. Lagt er upp með að prófin verði í seinni hluta apríl. Nánari upplýsingar koma síðar.

Kær kveðja, Lars Jóhann Imsland skólastjóri


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is