Samantekt frá opnum fundi um samskipti og viðbrögðum við einelti

1.11.2022

Samvinna foreldra skiptir máli – opinn fundur um samskipti og viðbrögð við einelti Hraunvallaskóli 26.10.2022

Fundur boðaður af stjórn foreldrafélagsins og skólastjórnendum Hraunvallaskóla. Rúmlega 100 foreldrar mættu á fundinn. Einnig voru viðstaddir aðilar frá fræðslu og tómstundarráði Hafnarfjarðarbæjar, fulltrúi frá samtökum Heimilis og skóla, ásamt aðilum úr nærumhverfi Hraunvallaskóla. Lars skólastjóri opnaði fundinn og Stefán Már, formaður foreldrafélagsins, sá um fundarstjórn. 

Vanda Sigurgeirsdóttir – Uppeldis og tómstundafræðingur, einn eigandi KVAN.  Jákvæð samskipti og sterkir hópar.

Vanda talaði um að einelti og önnur meiðandi hegðun væri aldrei réttlætanleg og finna þyrfti leiðir til að fyrirbyggja og stöðva einelti. Í því samhengi ræddi hún um mikilvægi þess að vera ekki að skamma og refsa, heldur finna lausnir saman sem hjálpa öllum og þannig styðja við betri menningu og stoppa neikvæða hegðun. Hún lagði áherslu á ábyrgð foreldra í eineltismálum þar sem virðing, umburðarlyndi og góð samvinna skiptir lykilmáli. Einnig að foreldrar geti aðstoðað skólann við að stuðla að góðum bekkjaranda og hjálpast að við að móta sterka hópa. 

  •  Í flestum málum sem KVAN fer inn í vegna neikvæðrar hegðunar eru símtækin hluti af vandamálinu.
  •  Mikilvægt að tala skýrt við börnin okkar og setjum skýr skilaboð um hvernig við högum okkur. Við meiðum ekki aðra og særum ekki aðra. 
  • Ef börnin okkar meiða og særa þarf að halda ró sinni en vera ákveðin og skýr um það að þessi hegðun þurfi að breytast og verði að stoppa strax.
  • Til eru mörg verkfæri til að hjálpa foreldrum að hafa áhrif á hegðun barna sinna. En foreldrar þurfa að bregðast við, taka ábyrgð, ræða við sín börn og leita til þess aðstoðar ef þarf. 
  • Rannsóknir hafa sýnt að fyrrum gerendum líður illa yfir því hvernig þeir hafa hagað sér. Hegðunina þarf að stöðva en einnig þarf að aðstoða og leiðbeina, enda um börn að ræða. 
  • Þolendum líður alltaf illa og þá þarf að styðja með ýmsum hætti, enda brýtur einelti niður sjálfsmynd og sjálfstraust, sem byggja þarf upp á ný. 
  • Breyta þarf hegðunarreglum í hópum til að uppræta einelti. Ýmis sterk öfl sem vinna innan hópa og tengjast félagslegu eðli, menningu, völdum, hegðunarreglum og jaðarsetningu. 
  • Ekki er nóg að vinna eingöngu með einstaklinga, það þarf að vinna með hópinn. Við viljum styrkja veika hópa og skapa sterka hópa. Það þarf mikla vinnu og krefst samstarfs foreldra. 
    • Sterkir hópar sýna samstöðu, hafa jákvæða leiðtoga, allir eru partur af hópnum, þar ríkir góður bekkjarandi, einstaklingar sýna samkennd og þeim líður vel.
    • Í veikum hópum ríkir ekki traust, neikvæðir leiðtogar vaða uppi, einelti og ofbeldi lýðst, ljótt orðbragð, þöggun, dómharka og vanlíðan. 
  • Pössum orðavalið í kringum börnin og tökum góðar ákvarðanir. Ekki rjúka til í reiðinni, heldur stöldrum við og gerum það sem er best fyrir börnin. Við viljum vera partur af lausninni en ekki vandanum. 

Lars Jóhann Imsland, skólastjóri - Vinnuferli í samskipta- og eineltismálum 

Lars fór yfir eineltisáæltun skólans, farvegi mála og mikilvægi þess að tilkynna einelti.

  •  Skólinn vinnur eftir skýrri stefnu þegar tilkynning berst. Sjá hér. Tekið er fram að ferlið er í endurskoðun. 

  • Ólíkt er tekið á málum eftir því hvort um er að ræða einelti eða samskiptavanda. 
  • Einelti er síendurtekið áreiti sem beinist að sama aðila í lengri eða skemmri tíma. Beinist að ákveðnum einstaklingi sem á erfitt með að verja sig. 
  • Samskiptavandi á sér stað á milli jafningja 
  •  Hvert á að leita? Sjá hér.
  • Leysist mál ekki innan skólans er málið tekið áfram hjá Barnavernd eða því er vísað í Brúnna. 

Guðbjörg Inga, formaður samskipta- og eineltisteymis Hraunvallaskóla 

Guðbjörg Inga fjallaði um margar af þeim áskorunum sem börn eru að kljást við en flest þeirra eru tengd notkun og áhrifum samfélagsmiðla. Einnig fjallaði hún um þær bjargir sem skólinn hefur fyrir þolendur og gerendur. Mismunandi aðferðum er beitt eftir eðli málsins hverju sinni. Dæmi um aðstoð sem skólinn getur veitt: 

  • Viðtöl við náms- og starfsráðgjafa, skólafélagsráðgjafa og deildarstjóra 
  • Félagsfærniþjálfun hjá þroskaþjálfa 
  • Glymur
  • Vinaliðaverkefnið í frímínútum 
  • Vinnsla mála með Brúnni og Barnavernd 
  • Ráðgjöf um frekari meðferð 
  • Fræðsla fyrir árgang/bekki 
  • Hópastarf í Mosa 

Eiríkur Þorvarðarson, deildarstjóri/sálfræðingur hjá mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar. 

Eiríkur fjallaði um að við eigum að hlusta á börnin okkar og vera á varðbergi fyrir því sem er að gerast í snjalltækjunum. Samfélagið allt þarf að taka ábyrgð og skoða hvar við getum gert betur. 

  • Flóknari heimur sem við foreldrar þekkjum jafnvel ekki, m.a. samfélagsmiðlar, hatursorðræða, kynbundið og rafrænt ofbeldi 
  • Ef við heyrum af því að börn séu lögð í einelti þá þarf að láta skólann vita. Tilkynningar um einelti þurfa að berast inn svo hægt sé að bregðast við 
  • Leggjum okkur fram um að þekkja vini barna okkar, hvað þeir heita, hvar þeir eiga heima, hverjir eru foreldrarnir, hvað eru þau að gera osfrv.
  • Virðum aldurstakmarkanir á samfélagsmiðlum. Það er af ástæðu sem sett eru aldurstakmörk. o Auka þarf áherslu á fræðslu um geðrækt og félagsfærni. 
  • Kynnum okkur NET sáttmálann frá Heimili og skóla (SAFT). Þar eru góðar leiðir fyrir foreldra til að ræða við börnin sín um notkun samfélagsmiðla. 

Spurningar og umræður í lok erinda - Meðal annars var rætt um eftirfarandi: 

  • Er komin reynsla á bann við símanotkun í Öldutúnsskóla og er það eitthvað sem við getum skoðað að gera í Hraunvallaskóla? Skorað á bæjarfélagið að læra af reynslu Öldutúnsskóla og miðla með öðrum skólum 
  • Spurt um ávinninginn af því að leyfa símanotkun í skólanum? 
  • Verður unnið með það að bæta bekkjaranda í Hraunvallaskóla?
  • Er unnið í samvinnu með öðrum bæjarfélögum til að leita lausna? 
  • Hvernig er unnið með gerendahópinn? 
  • Er hægt að efla sýnileika starfsfólks á skólalóðinni og efla samveru nemenda? 
  • Hvað er Brúin? 
  • Foreldri bendir öðrum foreldrum á að skoða síma barna sinna og komast að því hvaða efni þau eru með á símanum. 
  • Foreldri segir frá tilraun um símalausan mánuð í ákveðnum árgangi í öðrum skóla 

Stefán lokar fundinum með orðum um mikilvægi öflugs foreldrastarfs og hvetur foreldra til að taka taka þátt og hafa áhrif. Með því að taka virkan þátt í foreldrasamstarfinu, mæta á viðburði, foreldraröltið, tala saman og kynnast öðrum foreldurm því þannig stuðlum við að góðum bekkjarandi og hjálpumst að við að móta góðan skóla þar sem börnunum okkar líður vel. Stjórn foreldrafélagsins mun á næstu dögum fylgja eftir fundinum við skólastjórnendur. Einnig fylgja málum eftir með fundum og fræðslu í vetur þar sem við vonumst eftir góðri þátttöku foreldra, því samtalið þurfum við að eiga áfram. Stjórn foreldrafélagsins mun áfram leggja sitt að mörkum eins og aðstæður leyfa í samstarfi við foreldra og skólann. 

Samvinna foreldra skiptir máli


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is