Sóttvarnir í Hraunvallaskóla

5.10.2020

Minnisblað sóttvarnalæknis um breytingar frá 5. október, til og með 17. október, kveða á um að grunnskólastarf verði óbreytt en samt gildi þar 30 manna hámarksregla fullorðinna í hverju rými og 1m fjarlægðarregla. Lagt er upp með að skólastarf verði með venjubundnum hætti en samt sem áður er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar sem í grunninn snúast um að einfalda skólastarfið eins og kostur er. Þannig mun Gulldrekalottó frestast, allar vettvangsferðir nemenda falla niður þessa daga sem og tónlistarkennsla sem fer fram í Hraunvallaskóla.

Búið er að gera nauðsynlegar ráðstafanir innan húss sem snúa að því að minnka samneyti og blöndun starfsfólks. Vinnusvæði starfsmanna hafa verið skilgreind og afmörkuð, matar- og kaffistofum hefur verið fjölgað og samstarf og samvinna færð yfir á rafrænan máta eins og kostur er.

Allur umgangur utanaðkomandi inn í skólabygginguna er bannaður þessa daga. Ítrekað er að foreldrar eiga ekki að koma inn í skólann nema hafa fengið boð frá starfsmanni skóla. Þeir sem fá boð um að koma inn í skólann þurfa að vera með grímu til að minnka hættu á smiti.

Við viljum biðja nemendur, foreldra og starfsmenn um að gæta vel að almennum sóttvarnaaðgerðum því það eru þessar einstaklingsbundnu sóttvarnir sem skipta öllu máli. Þá viljum við minna á viðmið um hvenær grunnskólanemendur og starfsfólk eiga EKKI að mæta í skólann. Nemendur/starfsfólk eiga EKKI að mæta í skólann ef þau:

• Eru í sóttkví, einangrun eða bíða niðurstöðu sýnatöku.
• Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
• Eru með flensueinkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.). Miðað er við að skólabörn og starfsfólk skuli vera hitalaust a.m.k. einn sólarhring áður en þau snúa aftur í skólann ef veikindi stafa af öðru en COVID-19.

Það er nauðsynlegt að fara sérstaklega varlega um þessar mundir og við þurfum að hjálpast að við að gera allt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir smit í skólanum okkar og koma í veg fyrir að stór hópur þurfi að fara í sóttkví.

Tökumst á við þetta saman. Við erum öll almannavarnir!


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is