Til foreldra/forsjáraðila nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar

2.11.2020

Til foreldra/forsjáraðila nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar

Þriðjudaginn 3. nóvember 2020 taka gildi nýjar sóttvarnarreglur og ná til 17. nóvember nk. Að sumu leyti eru sóttvarnarfyrirmæli flóknari nú og krefjast meira af nemendur og skólunum en áður. Skólastjórendur grunnskólanna hafa alla helgina verið að undirbúa breytingar og nemendur, stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla er í dag að undirbúa sig fyrir næstu vikur. Meginmarkmiðið er að halda úti sem mestu og bestu skólastarfi miðað við þær sóttvarnakröfur sem gerðar eru. Það er þó óhjákvæmilegt annað en að breytingarnar muni hafa áhrif á skóladaginn hjá öllum nemendum á einhvern hátt. Við kynnum hér aðgerðir sem munu gilda næstu tvær vikurnar. Ekki er á þessari stundu vitað hvað tekur við eftir 17. nóvember.

Kennsluskipulag

Kennslustarfsemin verður einfölduð í skólanum. Kennsla fer fram á heimasvæðum/stofum/bókasafni næstu tvær vikurnar. Það verður ekki sund- eða íþróttakennsla í íþróttahúsum og engin kennsla fer fram í list- og verkgreinastofum. Starfsfólki verður skipt í hópa þar sem ekki verða fleiri en 10 fullorðnir og þeir tengjast um leið einu kennsluhólfi (sjá hér neðar). Hver skóli útfærir nánar skipulagið en nemendur á sama aldri í grunnskólum Hafnarfjarðar munu fá jafnmikla kennslu umræddan tíma. Foreldrar fá það skipulag sérstaklega frá skóla fyrir hvern hóp/bekk.

Nemendur í 1.-4. bekk (yngsta stig) munu fá fullan skóladag en sú kennsla mun eingöngu fara fram á heimasvæðum/bókasafni. Nemendum er skipt í kennsluhólf sem í geta verið allt að 50 nemendur (tveir bekkir) og innan þess geta allt að 10 fullorðnir verið. Kennsla verður 6 kennslustundir á dag eða fram að því að nemendur fara í frístundaheimili hjá þeim sem þegar eru þar skráðir en aðrir nemendur fara heim. Starfsemi frístundarheimilis verður áfram á kennslusvæði/bókasafni skráðra nemenda en ekki í húsnæði frístundaheimilisins meðan á þessum aðgerðum stendur. Nemendur fara út í frímínútur eftir kennsluhólfum og eiga ekki að blandast öðrum nemendum þar úr öðrum kennsluhólfum. Skólar skipuleggja því mögulega mismunandi frímínútnatíma og/eða skipta skólalóð í afmörkuð svæði fyrir einstök kennsluhólf til að koma þessu við. Nemendur hafa ekki grímur í skólanum en starfsfólk hefur grímur á göngum og mögulega einnig í kennslustundum ef ekki er hægt að koma við 2ja metra reglu milli fullorðinna.

Í 5.-10. bekk (mið- og elsta stig) koma nemendur í styttri skóladag að morgni og fram að/yfir hádegismat eða 4 kennslustundir á dag. Hver bekkur (að 25 nemendum) er sérstakt kennsluhólf og blandast ekki nemendum annarra bekkja. Nemendur í 5.-7. bekk fara út í frímínútur en nemendur í 8.-10. bekk verða í stofum sínum allan skólatímann og halda síðan beint heim. Þar sem EKKI er hægt að halda 2ja metra fjarlægðarreglu í kennslustofum/svæðum þurfa ALLIR nemendur í 5.-10. bekk að vera með grímur í skólanum allan skóladaginn, bæði á göngum skólans og í kennslustundum. Starfsfólk skóla skal vera með grímur á göngum. Í kennslustofum/kennslurýmum skal starfsfólk notast við grímur ef ekki er hægt að viðhalda 2ja metra fjarlægð. Þeir nemendur sem ekki koma með grímur að heiman geta gengið að einnota grímum í anddyri innganga sem þau munu ganga um.

Aðgengi foreldra/forsjáraðila

Foreldrar eiga ekki að koma inn í skóla nema í undantekningartilvikum, þ.e. ef skóli kallar á foreldra vegna veikinda eða annarra sérstakra aðstæðna hjá börnum þeirra. Foreldrar sem fylgja börnum sínum í skólann og sækja skulu sleppa þeim og taka á móti þeim við útidyr og ekki fara inn í skóla hvernig sem veðurfari er háttað. Almennt gilda sömu reglur um veikindi og leyfi og verið hafa.

Tímasett og skóladagur í Hraunvallaskóla

Bekkur Kennsla hefst: Kennslu lýkur: Inngangur sem nemendur nota þegar þeir mæta og við lok dags
1.bekkur 8:00 12:50 Drekavallainngangur
2.bekkur 8:00 12:50 Aðalinngangur v/bílastæði
3.bekkur 8:00 12:50 Inngangur leikskólamegin
4.bekkur 8:10 13:00 Portið á móti matsal og portið á móti Drekavallainngangi
5.bekkur 8:10 11:30 Aðalinngangur v/bílastæði
6.bekkur 9:00 12:20 Portið móti matsalnum
7.bekkur 11:00 14:10 Aðalinngangur v/bílastæði
8.KJ 9:00 12:10 Fléttuvellir
8.JTS 9:00 12.10 Leikvellir
8.ÓS 9:00 12.10 Aðalinngangur v/bílastæði
9.HBG 9:00 12:10 Neyðarhurð á stærðfræðisvæði
9. MHR 9:00 12:10 Neyðarhurð á dönskustofu
9. MJ 9:10 12:20 Fléttuvellir
10.GHV 9:10 12:20 Leikvellir
10. ÁRB 9:20 12:30 Leikvellir
10. SÖB 9:30 12:40 Leikvellir

Matarmál

Matarþjónusta ALLRA nemenda mun vera með hefðbundnu sniði, þ.e. þeir nemendur sem eru í áskrift að ávöxtum og hádegismat í nóvember munu fá matinn sinn í samræmi við áskrift. Öll neysla matar mun þó færast inn í stofur þar sem nemendur munu fá hádegisverð afhentan í einnota bökkum. Hafragrautur að morgni og sala á síðdegishressingu fyrir nemendur í 5.-10. bekk fellur niður þessar tvær vikur en síðdegishressing í frístundaheimili er óbreytt. Áfram er hægt að koma með nesti í skólann.

Mosinn

Starfsemi félagsmiðstöðva mun alfarið færast í rafrænt form.

Aðkoma sérfræðinga/tónlistarskóla

Greiningar sál-/talmeinafræðinga (skólaþjónusta) mun áfram verða til staðar undir ströngum sóttvarnareglum en öll ráðgjöf til skóla/foreldra frá ytri ráðgjöfum mun verða í gegnum fjarfundabúnað. Kennsla nemenda í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar mun falla niður í grunnskólunum.

Sóttvarnaraðgerðirnar eru íþyngjandi fyrir skólastarfið, bæði starfsfólk og nemendur. Við biðjum um þolinmæði gagnvart breytingum á starfsemi sem mun eiga sér stað, bæði styttingu skóladags hjá hluta nemenda og takmarkandi kennslustarfsemi undir þessum kringumstæðum. Mikilvægt er að horfa jákvætt á nýjar aðstæður því hæfni manns til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum er eiginleiki sem gefur fleiri tækifæri í lífinu og eykur þrautseigju okkar.

Kær kveðja, Lars Jóhann Imsland skólastjóri og

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is