Umferðarmenning Hraunvallaskóla

21.5.2021

Hér eru nýjar og endurbættar umferðareglur Hraunvallaskóla.

Reglur um hjól og létt bifhjól

  • Ég nota ávallt hjálm
  • Ég tek aldrei farþega
  • Ég tek tillit til gangandi vegfaranda og gæti að mér í umferðinni.
  • Ég legg hjólinu á réttan stað
  • Ég fer stystu leið inn á og út af skólalóð
  • Ég keyri aldrei á léttu bifhjóli á skólalóð

Samkvæmt lögum er öllum undir 16 ára aldri, á hjólum, hlaupahjólum, línuskautum og léttum bifhjólum, skylt að nota öryggishjálma og viðeigandi öryggisbúnað. Endurskinsmerki skal nota í skammdeginu og hjólin þurfa að vera með ljósum og glitaugum og öðrum þeim öryggisbúnaði sem gerir þau lögleg. Hjól skulu vera læst á skólatíma og bera nemendur ábyrgð á hjólum sínum.

Hjólreiðar til og frá skóla eru alfarið á ábyrgð foreldra. Reiðhjól eru lögum samkvæmt skilgreind sem ökutæki og því gilda í grundvallaratriðum sömu lög og reglur um akstur reiðhjóla og bíla. Þó er sú undantekning á að hjóla má á gangstéttum og gangstígum en hjólreiðamaður skal þar víkja fyrir gangandi vegfarendum og sýna þeim fulla tillitsemi. Hjólandi vegfarendur hafa fullan rétt á að vera á akbrautum. Ekki er þó mælt með því að hjólað sé á akbrautum með mikilli og hraðri umferð (ef annar valkostur er í boði).

Nemendur sem velja að koma á hlaupahjólum í skólann gera það á eigin ábyrgð og læsa skal hlaupahjólum rétt eins og reiðhjólum fyrir utan skólann. Sömu reglur gilda um hlaupahjól og reiðhjól varðandi notkun viðeigandi öryggisbúnaðar eins og hjálma og hlífa. Hjólabretti skulu geymd á heimasvæði á skilgreindum stað í samkomulagi við kennara. Línuskautar skulu geymdir í anddyri skólans við skóhillu nemenda. Á hlaupahjóli, hjólabretti og línuskautum skal fara eftir umferðarreglum fyrir gangandi vegfarendur. Heimilt er að nota gangstéttir og göngustíga en taka þarf tillit til gangandi vegfarenda og víkja fyrir þeim. Á gangstétt eða gangstíg á að halda sig hægra megin og fara fram úr öðrum vinstra megin. Hlaupahjól, hjólabretti og línuskautar eiga ekki að vera á akbrautum.

Hjólin má ekki nota á skólatíma (frímínútur falla undir skólatíma) en heimilt er að fara stystu leið út af og inn á skólalóð ef farið er á hjóli í Ásvallalaug eða á Ásvelli. Þó er heimilt er að nota hlaupahjól og hjólabretti á hjólabrettavelli á skólatíma.

Samkvæmt 44 grein umferðarlaga má barn yngra en 7 ára ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti einstaklings sem náð hefur 15 ára aldri. Því óskum við þess að nemendur í 1. bekk komi ekki á hjólum í skólann nema undir eftirliti fullorðinna.

Nemendur í 2. – 4 bekk mega koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðarlögum, með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 2. – 3. bekk er ekki heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug.

Nemendum í 4. – 10. bekk er heimilt að koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðalögum með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 4. – 10. bekk er heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug og að Ásvöllum og skal þá farið stystu leið út af og inn á skólalóð.

Nemendum sem eru orðnir 13 ára er heimilt að koma á léttu bifhjóli í flokki 1 í skólann svo fremi sem farið er að reglum sem gilda um notkun slíkra hjóla. Létt bifhjól eru aldrei leyfð á skólalóð. Þeim skal lagt á skilgreint svæði sem sérstaklega er ætlað léttum bifhjólum. Nánar um létt bifhjól má lesa hér: https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/Lett-bifhjol-i-flokki-I.2017.3.pdf.

Foreldrar eru beðnir um að fylgja því eftir að farið sé að lögum og reglugerðum https://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/reidhjol/oryggisbunadur/

Lett-bifhjol2


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is