Upplýsingar til foreldra frá skrifstofu mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðar

23.8.2021

Til foreldra í grunnskólum Hafnarfjarðar haustið 2021

Þetta er sérstakur upplýsingapóstur til foreldra í grunnskólum Hafnarfjarðar vegna skólastarfsins í upphafi hausts 2021 þegar kórónaveirufaraldur er enn í gangi. Um leið og við þurfum að miðla upplýsingum um þá framkvæmd sem er fram undan þá vonum við að sumarið hafi verið ykkur og fjölskyldunni allri ánægjulegt og veitt hvíld og gleði nú þegar skólastarfið hefst á ný.

Meðal grunnskóla Hafnarfjarðar, og í samræmi við leiðbeiningar almannavarna á höfuðborgarsvæðinu, er unnið eftir samhæfðum viðmiðum og viðhafðar samræmdar aðgerðir í skólunum eins og við á - þótt einnig geti aðstæður í einstaka skólum ráðið framkvæmd út frá sérkennum og stærð skóla án þess að brjóta almenn viðmið.

Meginatriði í skilaboðum okkar til heimilanna er að stefnt sé að því að skólastarfið verði í sem eðlilegustum farvegi í allan vetur. Það felur fyrst og fremst í sér að skólastarfið er miðað við fulla kennslu samkvæmt aðalnámskrá þar sem allar námsgreinar eru kenndar og fullur skóladagur í gangi allt skólaárið með öllum þeim verkefnum sem því fylgja, t.d. frístundaheimili, félagsmiðstöð, matarþjónusta og skólaþjónusta. En að því sögðu er ljóst að margir óvissuþættir eru með skólastarfið og verða þeir reifaðir hér aðeins áfram.

Höfuðborgarsvæðið hefur sett sér eigin leiðbeiningar um skólastarf í upphafi skólaársins sem er að hefjast. Þessar leiðbeiningar má nálgast hér: https://ahs.is/wp-content/uploads/2021/08/20210820-Leidbeiningar-fyrir-skola-og-fristundastarf-a-HBS-i-upphafi-skolaars-vegna-farsottar.pdf. Meginatriði þessara leiðbeininga er að viðhafa ákveðnar takmarkanir í skólastarfi til að minnka líkur á smitum í skólum, t.d. með grímuskyldu starfsfólks og gesta út frá vissum kringumaðstæðum.

Þá höfum við ákveðið að minnka heimsóknir foreldra í skólana á næstunni, t.d. að foreldrar barna í 2.-10. bekk komi ekki í skólasetningar í haust en foreldrar barna í 1. bekk komi í skólann eftir ákveðnum reglum. Sömuleiðis að foreldrar nýrra nemenda hafi möguleika að koma með börnum sínum í skólann. Nauðsynleg viðtöl við einstaka foreldra halda áfram, hvort sem það er á fjarfundum eða staðfundum í skóla.

Ef foreldrar og nemendur eru nýkomnir frá útlöndum er mikilvægt að fylgja þeim reglum sem eru í gildi á hverjum tíma, núna að fara í hrað-/PCRpróf innan 48 klst. eftir komu og ekki koma í skólann nema neikvæð niðurstaða hafi komið úr prófinu. Það sama gildir um starfsfólk skóla.

Það er mikil óvissa með sóttkví nemenda og starfsfólks grunnskólanna nú þegar skólastarfið hefst. Það eru sóttvarnayfirvöld sem ákveða hverjir skulu fara í sóttkví komi til þess að nemendur og/eða starfsfólk skóla veikist af covid-19 og nýjar leiðbeiningar hafa verið gefnar út um sóttkví í skólum, sjá: https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/rakning%20og%20litahringir-.pdf. Meginefni þessara reglna er að reyna að senda nemendur og starfsfólk í sóttkví út frá því í hve miklum tengslum þeir hafi verið við smitaða einstaklinga. Reynslan á eftir að leiða í ljós hversu mikið nemendur og starfsfólk skóla þurfa að sæta sóttkví.

Foreldrar skulu leita til skóla barna sinna með aðgerðir skólans hverju sinni og nánara skipulag skólastarfsins sem er í höndum hvers skóla.

23. ágúst 2021

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is