Úrslit skólans í Stóru upplestrarkeppninni

8.3.2023

Á föstudaginn var þann 3. mars fór fram lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar innahúss í Hraunvallaskóla þar sem 12 keppendur tóku þátt.

Athöfnin var hin hátíðlegasta og gestir í sal voru nemendur og kennarar í 6. og 7. bekk ásamt forsjáraðilum keppendanna sjálfra.

Þjálfari keppendanna, Símon Örn Birgisson íslenskukennari í unglingadeild var að sjálfsögðu á staðnum keppendum til halds og trausts.

Dómarar keppninnar voru ekki af verri endanum en það voru þær Ingibjörg Einarsdóttir en hún er einn af stofnendum keppninnar, Marsibil Ólafsdóttir fyrrverandi skólastjóri Hvaleyrarskóla og Guðrún Sturlaugsdóttir fyrrverandi aðstoðarskólastjóri Hraunvallaskóla.

Keppendur komu tvisvar sinnum fram og í fyrri umferðinni lásu þeir textabrot úr sögunni "Ertu Guð afi" eftir Þorgrím Þráinsson en í þeirri seinni fluttu þeir ljóð.

Á meðan dómnefnd réði ráðum sínum hlýddum við á ljóð flutt af Hildi Örnu nemanda í 8. bekk en hún var ein af sigurvegurum keppninnar í fyrra. Þar á eftir fengum við tvö tónlistaratriði frá nemendum í 6. bekk, G. Lísa Eggertsdóttir spilaði lag á fiðlu og Sara María M. Menczynski spilaði lag á píanó. Þetta var virkilega vel gert hjá þeim og gaman að nemendur taki svona vel í að koma fram og deila með okkur hinum hæfileikum sínum.

Sigurvegarar keppninnar innanhúss skólaárið 2022-2023 eru:
Theodór Elvis Ólafsson
Soffía Karen Björnsdóttir
Sara Karabin

Þau koma til með að keppa fyrir hönd Hraunvallaskóla þann 21. mars næstkomandi í Víðistaðakirkju þar sem lokakeppni Stóru upplestrarkeppni grunnskóla Hafnarfjarðar fer fram.

Við óskum öllum keppendum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu og persónulegan sigur að koma svona fram, til þess þarf heilmikið hugrekki.

Sigurvegurum keppninnar óskum við að sjálfsögðu velgengni í lokakeppninni sjálfri og heillaóskir með sigurinn.

SU-2023-3SU-2023-2SU-2023-5SU-2023-8SU-2023-7SU-2023-4SU-2023-1


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is