Viðburðir í september

27.8.2021

Mikið er nú gott að vera komin af stað aftur eftir sumarfrí. Allir komnir í sína rútínu og lífið farið að ganga sinn vanagang. Nemendur koma glaðir og spenntir inn í skólaárið og við öll hér í skólanum himinlifandi með alla. Nú ætla ég að fara yfir þá viðburði sem verða nú í september og er stefnan sett á eins og í fyrra að gera þetta í upphafi hvers mánaðar. Þetta eykur upplýsingaflæði og samvinnu heimilis og skóla og gengur skólastarfið mun betur þegar við vinnum saman.

Þann 7. september verður hið árlega Ólympíuhlaup haldið hér í Hraunvallaskóla. Þar ganga/skokka/hlaupa nemendur mismarga hringi í hverfinu allt eftir ástandi og aldri hvers og eins. Allt starfsfólk tekur þátt á einhvern hátt og höfum við boðið foreldrum að taka þátt en því miður sökum Covid-19 þá verður það ekki gert í ár. Það verður því stuð og stemning í hverfinu okkar þann 7. september.

Föstudaginn 10. september er skipulagsdagur. Þá gefst kennurum tækifæri til skipulagningar á starfinu ásamt endurmenntun. Nemendur eru í fríi þennan dag í skólanum en Hraunsel er opið fyrir alla nemendur í 1.-4. bekk. Skráning er í Hraunsel fyrir þá sem eru með daglega vistun þar og búið er að opna fyrir skráningar í gegnum „Völu“. Þeir nemendur sem ekki eru með daglega vistun í Hraunseli geta sent tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is og óskað eftir vistun á þessum degi. Sá vistunartími er frá kl. 08:00-13:20.

Skólakynningar þessa skólaárs verða rafrænar þetta árið reglur takmarka aðgang foreldra/forsjáraðila að skólabyggingum í bænum. Umsjónarkennarar munu senda kynningarnar til ykkar þegar þær verða tilbúnar og hvetjum við ykkur til að horfa á þær og ef það vakna spurningar að senda á umsjónarkennara eða deildarstjóra viðkomandi deildar.

Verkefninu „Göngum í skólann“ verður fylgt eftir hér í Hraunvallaskóla í vikunni 20.-25. september. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Nánari upplýsingar um framkvæmdina kemur þegar nær dregur.

Skólafærninámskeið fyrir foreldra/forsjáraðila 1. bekkjar er áætlað 22. september. Ekki er búið að taka lokaákvörðun um hvort þessi tímasetning haldi sér eða hvort eigi að fresta námskeiðinu sökum takmarkana. Sendar verða upplýsingar til foreldra/forsjáraðila 1. bekkjar þegar niðurstöður liggja fyrir.

Gulldrekalottóið okkar verður dagana 27. sept. til 8. okt. Tilgangur leiksins er að hvetja nemendur til að fara eftir SMT skólareglum. Nemendur leggja sig fram við að sýna fyrirmyndarhegðun á almennum svæðum skólans (matsal, göngum og skólalóð). Jákvætt andrúmsloft skapast sem leiðir til betri hegðunar. Allir nemendur geta verið með í leiknum. Leikurinn gengur út á það að 10 nemendur skólans í 1.-4. bekk annars vegar og 5.-10. bekk hinsvegar, fá einn „Gulldreka“ á dag í 10 daga. Hvor hópur safnar þá samtals 100 „Gulldrekum“. Þar sem þetta er lottó þá geta allir unnið ef þeir bara fara eftir SMT skólareglum. Þið foreldrar/forsjáraðilar verðið örugglega var við þegar lottóið fer stað þar sem nemendum finnst það mjög skemmtilegt.

Síðan viljum við minna á vetrarfríið sem byrjar á skipulagsdegi þann 13. okt. og vetrarfríið 14.-15. okt. Nemendur eru í fríi í skólanum þessa daga. Endilega skráið þetta hjá ykkur.

Að lokum hlökkum við til að vinna með ykkur öllum á þessu spennandi skólaári sem framundan er. Ef þið hafið einhverjar spurningar eða vangaveltur þá endilega sendið okkur tölvupóst eða hringið í okkur.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is