Vikan framundan - skólaslit

7.6.2021

Nú er síðasta vika skólaársins gengin í garð. Margt skemmtilegt framundan og síðan sumarið með öllu því sem það hefur upp á að bjóða. Við viljum minna foreldra/forsjáraðila á að þegar þau mæta á viðburði í skólanum að þá er grímuskylda þar sem við getum ekki tryggt eins meters fjarlægð vegna fjarlægðartakmarkanna.

Á morgun þriðjudag er "Opið hús og samtalsdagur". Foreldrar eru velkomnir í skólann í heimsókn til að sjá afrakstur Grúskdaga. Í yngri deildinni er "Opna húsið" frá kl. 08:30-11:00 og mæta nemendur og foreldrar/forsjáraðilar saman á heimasvæði nemanda. Í 5.-6. bekk eru "Opið hús" frá kl. 08:30-10:30 og mæta foreldrar/forsjáraðilar á heimasvæði nemenda. Nemendur taka á móti foreldrum/forsjáraðilum og sýna þeim afraksturinn. Í 7. bekk fá foreldrar/forsjáraðilar senda tímasetningu þar sem þau geta komið og hlustað á kynningu síns barns. Í unglingadeild er opið hús frá kl. 08:30-10:30 og eru nemendur með sýningu á sínum verkefnum í heimastofu sinni. Eftir hádegið er valkvæður samtalsdagur þar sem foreldrar/forsjáraðilar hafa nú þegar skráð sig á tíma. Um kvöldið er "Árshátíð unglingadeildar" og er mikil tilhlökkun í nemendahópnum. Þema árshátíðarinnar í ár er "TIKI SUMAR". Húsið opnar 18:30 og er ballið búið 22:30.

Á miðvikudaginn er íþróttadagur þar sem allir nemendur skólans taka þátt í leikjum og þrautum. Nemendur í 1.-7. bekk mæta á sínum hefðbundna tíma í skólann og klára daginn samkvæmt stundarskrá. Nemendur í unglingadeild eru með skertan skóladag og eru því búnir skólanum kl. 11:00. Allir nemendur skólans fá grillaðar pylsur og safa í hádegismat. Við endum síðan daginn með því að útskrifa okkar frábæra 10. bekk sem er búin að vera með okkur síðastliðin 10 ár. Foreldrar/forsjáraðilar þeirra fá sér tölvupóst með dagskrá og fyrirkomulagi.

Á fimmtudaginn eru skólaslit í 1.-9. bekk á eftirtöldum tímum:
kl. 08:30-09:00 Skólaslit í 1. bekk
kl. 09:00-09:30 Skólaslit í 2. bekk
kl. 09:30-10:00 Skólaslit í 3. bekk
kl. 10:00-10:30 Skólaslit í 4. bekk
kl. 10:30-11:00 Skólaslit í 5.-9. bekk
Foreldrar/forsjáraðilar nemenda í 1.-4. bekk eru velkomnir með og er mæting á sal skólans.
Nemendur í 5.-9. bekk mæta beint á sín heimasvæði eða heimastofur án foreldra/forsjáraðila að þessu sinni.

Eftir skólaslit eru nemendur komnir í kærkomið sumarfrí.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is