Evrópusamstarf
Það er upplifun stjórnenda og starfsfólks Hraunvallaskóla að samstarf við erlenda aðila sé mikil vítamínssprauta fyrir skólastarfið í heild sinni. Því er það stefna okkar í Hraunvallaskóla að vera virk í erlendu samstarfi og í gegnum árin hafa starfsmenn verið hvattir til að leita sér þekkingar og efla eigin færni með því að taka þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum.
ERASMUS
Skólaárin 2020-2023 er
Hraunvallaskóli þátttakandi í ERASMUS+ verkefninu Responsible Future Learners. Verkefnið er samstarfsverkefni fimm
skóla frá jafnmörgum löndum; Danmörk, Finnland, Pólland, Spánn og Ísland.
Áhersla er á tækni og ábyrga tækninotkun, nemendalýðræði og læsi. Hugmyndin er
að skoða hvernig við getum búið nemendur undir nám í síbreytilegu tækniumhverfi
þar sem samskipti, ábyrgð, lýðræði og læsi í víðum skilningi er æ mikilvægara
fyrir virka þátttöku í nútíma samfélagi.
Skólaárin 2017-2019 var Hraunvallaskóli þátttakandi í verkefninu Green Clean Future. Um var að ræða samstarfsverkefni við fjögur önnur lönd; Danmörk, Norður Írland, Rúmenía og Finnland sem stýrði verkefninu.
Lengd verkefnis var 2 ár og áherslan var á umhverfisvernd og sjálfbærni. Áhersla var á loftlagsbreytingar, veðurfarsbreytingar, matarsóun, sjálfbæran ferðamáta, plast, endurvinnslu og flokkun. Hraunvallaskóli sá um skipulag verkefna tengd plasti og bar ábyrgð á gæðastjórnun verkefnisins með því að skipuleggja spurningalista á meðan á verkefninu stóð. Verkefnið hefur heimasíðu þar sem sjá má afrakstur samstarfsins.

Skólaárið 2016-2017 var Hraunvallaskóli þátttakandi í samvinnuverkefni við kennara frá Grikklandi sem komu í vikutíma í vettvangsathugun í Hraunvallaskóla. Markmið verkefnisins var að kynna sér skólastarf í opnum skóla með áherslu á unglingastig og upplýsingatækni. Heimsóknin fór fram í lok október 2016.
Verkefnið Snjallir stjórnendur var námskeið stjórnenda Hraunvallaskóla á vegum ERASMUS haldið 16.-20. mars 2015 í Prag. Stjórnendur Hraunvallaskóla eru líkt og margir starfsmenn hans leitandi að erlendu samstarfi með það að markmiði að efla eigin færni sem og almennt skólastarf í Hraunvallaskóla. Markmið verkefnisins Snjallir stjórnendur var að stuðla að faglegri starfsþróun stjórnenda skólans. Styrkja þá sem einstaklinga og teymi en með því að auka persónulega færni stjórnenda í ofangreindum þáttum styrkist stjórnendahópurinn sem teymi/heild og verður færari í daglegri stjórnun og í að leiða skólastarfið áfram. Á það ekki síst við erlent samstarf sem hefur verið svo gefandi í gegnum árin. Námskeið á erlendri grundu veitir stjórnendum einnig tækifæri til að kynnast erlendum stjórnendum og leita að tengslanetum fyrir samstarfsverkefni/vaxtarsprota milli Hraunvallaskóla og Evrópu í nánustu framtíð.
NORD+
Skólaárið 2016-2017 var Hraunvallaskóli þátttakandi í NordPlusverkefni sem bar heitið „Share and improve“ eða deilum og bætum ásamt Litháen, Eistlandi og Færeyjum. Verkefnið gekk út á að kennarar fóru í heimsókn til landanna þriggja og kynntust nýjum kennsluaðferðum, menningu og sögu landanna.
Skólaárin 2013-2014 var Hraunvallaskóli þátttakandi í NORD+ verkefni sem snýr að kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál. Skólinn tók líka þátt í Norrænu samstarfsverkefni um dönskukennslu í 8. bekk. Bæði þessi verkefni hafa haft almenn jákvæð áhrif á skólastarfið í heild sinni.
eTwinning
Á vordögum 2016 fékk Hjördís Ýrr Skúladóttir, kennari við Hraunvallaskóla, viðurkenningu fyrir þátttöku í eTwinning verkefni, svokallað eTwinning Quality label. Verkefnið var unnið í samstarfi nokkurra Evrópuþjóða með það að markmiði að auka vitund barna um ofnotkun á plasti. Var ýmsum aðferðum beitt s.s. að láta plastið fá nýtt líf í listaverkum eða jólakortum. Einnig unnu kennarar að facebook-væðingu með það fyrir augum að fleiri en börnin gerðu sér grein fyrir ofnotkun á plasti.
COMENIUS - Umhverfismennt
Kennarar skólans hafa í gegnum árin sýnt frumkvæði þegar kemur að erlendu samstarfi en Hraunvallaskóli tók t.d. þátt í Comeníusarverkefni 2009-2011. Þar voru á ferðinni kraftmiklir kennarar í miðdeild sem skutu styrkum stoðum undir umhverfismennt í Hraunvallaskóla í samvinnu við Breta og Spánverja en verkefnið hefur litað skólastarfið æ síðan þó því sé formlega lokið.
- Nýrri færsla
- Nýrri færsla