Fjölgreinadeild – sérdeild fyrir nemendur með fjölþættan vanda

Fjölgreinadeildin er miðlægt skólaúrræði á vegum mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar. Deildin er fyrir nemendur með fjölþættan vanda í 5. – 10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar. Haustið 2020 tók Hraunvallaskóli formlega við stjórn og rekstri deildarinnar sem hefur aðsetur í Menntasetrinu við Lækinn en kennsla getur farið fram á fleiri stöðum.

Árlegur starfstími deildarinnar fylgir skóladagatali Hraunvallaskóla.

Með „nemendur með fjölþættan vanda“ er átt við:

· Nemendur með aðlögunarvanda, félags- og tilfinningalegan vanda.

· Tengslaröskun; nemendur sem eiga í erfiðleikum með að tengjast öðrum og eiga við mikla félagslega erfiðleika.

· Hegðunarerfiðleikar; nemendur sem ná ekki að stjórna sinni hegðun.

· Áhættuhegðun; fíkniefni, vopn, tölvufíkn ofl.

· Ógnandi hegðun; nemendur sem eru með ógnandi hegðun við samnemendur og starfsfólk. Hafa jafnvel orðið þess valdandi að skaða aðra.

Nemendur geta þurft á breytingu á skólagöngu sinni að halda til lengri eða skemmri tíma og getur deildin því í senn verið skyndi- skammtíma- eða langtímaúrræði. Nemendur Fjölgreinadeildar eru skráðir í sinn heimaskóla meðan á námi í deildinni stendur nema annað sé ákveðið.

Í Fjölgreinadeild er lögð áhersla á góðan undirbúning fyrir áframhaldandi skólagöngu, fyrir lífið og þátttöku í samfélaginu. Þar er unnið í samvinnu við nemandann, foreldra/forráðamenn, heimaskóla og önnur úrræði eftir því sem við á.

Meginmarkmið deildarinnar er að:

· Skipuleggja tækifæri til náms á sem fjölbreyttasta hátt þar sem tekið er tillit til mismunandi þarfa og styrkleika.

· Undirbúa nemandann fyrir líf og starf með því að efla öryggi þeirra, sjálfsvirðingu, félagsfærni og líðan.

 

Leiðarljós starfsfólks er.

· Virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers og eins.

· Tiltrú á getu allra til að efla og nýta hæfileika sína til fulls.

Umsóknarferlið

Sótt er um skólavist á sérstöku umsóknarblaði „Umsókn um sérdeild“ sem má nálgast á heimasíðu allra skóla í Hafnarfirði. Skólavist nemenda er ákveðin af sérstakri inntökunefnd og skal að öllu jöfnu gerast fyrir 1. maí fyrir næsta skólaár. Einnig er hægt að taka inn nemendur á öðrum tímum skólaársins ef inntökunefnd metur svo. Umsókn er hægt að skila í viðkomandi skóla eða á skrifstofu mennta- og lýðheilsusviðs.

Frekari upplýsinga veita:
Helga Þórdís Jónsdóttir helgath@hraunvallaskoli.is deildarstjóri Fjölgreinadeildar og
Ásta Björk Björnsdóttir astabjork@hraunvallaskoli.is aðstoðarskólastjóri sérverkefna í Hraunvallaskóla.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is