Nemendaverndarráð og Brúin

Í nemendaverndarráði sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjórar, deildarstjórar og deildarstjóri Tómstundarmiðstöðvar Hraunvallaskóla

Nemendaverndarráð starfar samkvæmt reglugerð um grunnskóla. Hlutverk þess er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, náms­ráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur.  

Frá skólaárinu 2020 er starfandi undirteymi frá nemendaverndarráði Hraunvallaskóla sem nefnist Brúarteymi sem starfar eftir verklagi BRÚARINNAR sem mótað hefur verið af Hafnarfjarðarbæ. Markmið BRÚARINNAR er að efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum bæjarins, samþætta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Áhersla er lögð á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum með aðkomu brúarteyma leik- og grunnskólanna. Ásamt því hefur samvinna fagfólks verið efld á milli fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.

Í Brúarteymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskyldu- og skólaþjónustu BRÚARINNAR, sálfræðingum og/eða sérkennslufulltrúum frá mennta- og lýðheilsusviði. Hlutverk brúarteyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í brúarteymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins. Til þess að óska eftir þjónustu brúarteymis er foreldrum bent á að hafa samband við umsjónarkennara eða skólastjórnendur.

Nemendaverndarráð fundar einu sinni í viku á starfstíma skóla. Brúarteymi fundar einnig einu sinni í viku á starfstíma skóla. Ákveðin verkaskipting er viðhöfð milli Nemendaverndarráðs og Brúarteymis og mönnun er á eftirfarandi máta:

Nemendaverndarráð:

  • Lars Jóhann Imsland Hilmarsson skólastjóri - ábyrgðarmaður
  • Ásta Björk Björnsdóttir aðstoðarskólastjóri sérverkefna – stýrir og heldur utan um gögn
  • Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir aðstoðarskólastjóri almennra verkefna
  • Anna Rut Pálmadóttir deildarstjóri stoðþjónustu - ritari
  • Sara Pálmadóttir deildarstjóri tómstundamiðstöðvar
  • Deildarstjóra stiga sitja nemendaverndarráðsfundi eftir þörfum/málum

Brúarteymi:

  • Ásta Björk Björnsdóttir aðstoðarskólastjóri sérverkefna – stýrir og heldur utan um gögn
  • Anna Rut Pálmadóttir deildarstjóri stoðþjónustu - ritari
  • Ásgerður Arna ráðgjafi hjá fjölskyldu- og skólaþjónustu BRÚARINNAR
  • Þóra Kristín Flygenring sálfræðingur
  • Hafdís Inga Hinriks- og Helgudóttir skólafélagsráðgjafi
  • Guðný Eyþórsdóttir náms- og starfsráðgjafi
  • Ósk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur

Deildarstjóra stiga og tómstundamiðstöðvar sitja Brúareymisfundi eftir þörfum/málum. 

Nánar um verklag í nemendaverndarráði

Hlutverk nemendaverndarráðs:

Meginhlutverk nemendaverndarráðs er að gæta hagsmuna barna í skólanum, vernda þau og styðja með því að:

a) Taka við öllum tilvísunum vegna nemenda sem þurfa sérstakan stuðning eða aðstoð vegna líkamlegra, félagslegra og/eða sálrænna erfiðleika.

b) Samræma og samhæfa þjónustu skóla við nemendur sem eiga við náms- og/eða tilfinningalega örðugleika að etja.

c) Meta þörf nemenda fyrir greiningu sérfræðinga (sálfræðinga, talmeinafræðinga, sérkennara o.fl.) vegna náms-, tilfinninga- og/eða þroskavanda og samþykkja að gerð tilvísunar þar sem það á við.

d) Ræða málefni nemenda sem þarfnast sértækra úrræða eins og sjúkrakennslu eða tilvísanir til sérfræðinga sem ekki tilheyra stoð-/sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins.

e) Vísa málefnum einstakra nemenda til frekari úrlausnar, s.s. SMT lausnateymi, eineltisteymi eða önnur úrræði sem skóli hefur.

f) Vinna og afgreiða tilkynningar og aðrar upplýsingar til barnaverndaryfirvalda í samræmi við skyldur vegna barnalaga og barnaverndarlaga.

g) Vera tengiliður og til samráðs vegna einstakra nemenda við aðila utan skólans, svo sem félagsþjónustu, heilsugæslu, BUGL o.fl.

h) Hafa yfirsýn með og fylgja eftir starfsemi teyma sem ráðið vísar málum til og fara reglulega yfir stöðu mála sem þau annast fyrir nemendaverndarráðið.

i) Vera samráðsaðili við gerð árlegrar forvarnaráætlunar skóla.

 Seta í nemendaverndarráði:

Í nemendaverndarráði skóla skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar skóla (skólastjóri/fulltrúi hans, fulltrúi sérkennslu og náms- og starfsráðgjafi og fleiri fulltrúar til óski skólastjóri þess, t.d. fulltrúar úrlausnarteyma eins og lausnateymis), skólahjúkrunar-fræðingur skólans (fulltrúi heilsugæslu) og skólasálfræðingur skólans (fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags). Fundarfært er í nemendaverndarráði ef 3/5 af föstum fulltrúum þess eða fleiri mæta á fund. Ef ágreiningur er um afgreiðslu máls gildir meirihluti atkvæða og standi á jöfnu gildi atkvæði skólastjóra sem oddaatkvæði. Fulltrúi barnaverndaryfirvalda frá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar skal boðaður á fund ráðsins a.m.k. einu sinni í mánuði. Heimilt er að kalla aðra inn á fundi ráðsins til að ræða einstök mál, s.s. umsjónarkennara, utanaðkomandi sérfræðinga og foreldra.

Um nemendaverndarráðsfundi:

 Nemendaverndarráð hefur fastan fundartíma og fundir eru að lágmarki aðra hverja viku:

a) Skylt er að boða til fundar í ráðinu innan viku æski tveir fulltrúar ráðsins þess.

b) Skólastjóri, eða fulltrúi hans, undirbýr fundi nemendaverndarráðs og ákveður dagskrá.

c) Skólastjóri, eða fulltrúi hans, ákveður hver stýrir fundum ráðsins.

d) Skrá skal í fundargerð öll mál sem berast ráðinu, allar ákvarðanir og ábyrgð með framkvæmd þeirra. Fundargerð er varðveitt sem trúnaðargagn á ábyrgð skólastjóra.

e) Á hverjum fundi skal fara yfir fundargerð síðasta fundar.

Vísan mála:

Nemendaverndarráð fjallar um mál nemenda skólans sem þurfa aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika og vísað er til ráðsins:

a) Málum skal vísað til nemendaverndarráðs á sérstökum tilvísanaeyðublöðum.

b) Starfsfólk skóla og foreldrar geta óskað eftir því við skólastjóra (eða fulltrúa hans í ráðinu) að mál nemenda eða nemendahópa í skólanum séu tekin fyrir.

c) Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar útbýr tilvísanaeyðublöð og skólinn kynnir fyrir starfsfólki og foreldrum hvar þau er að finna. Á tilvísanaeyðublöðum skal koma fram hver tekur við tilvísunum fyrir hönd ráðsins og jafnframt hvað hefur verið unnið í máli nemanda.

d) Að jafnaði skal upplýsa foreldra bréflega (tölvupóstur, bréfpóstur) um að máli barns þeirra hafi verið vísað til ráðsins (upplýsingar um það koma fram á tilvísunareyðublöðum). Sérfræðiþjónustan útbýr form fyrir það bréf.

Afgreiðsla mála:

Við afgreiðslu mála í ráðunu er hagur barna hafður að leiðarljósi og gætt jafnræðis og meðalhófs í samræmi við lög.

a) Nemendaverndarráð skal taka fyrir mál sem vísað er til þess eigi síðar en tíu skóladögum eftir að skrifleg beiðni berst.

b) Nemendaverndarráð ákveður hvort leita þurfi frekari gagna, hvort máli er vísað til sérfræðiþjónustu sveitarfélags eða hvaða aðrar leiðir skuli fara við úrlausn máls. Ráðið felur einum aðila úr ráðinu að fylgja eftir úrlausn hvers máls.

c) Fulltrúar í nemendaverndarráði eru bundir þagnarskyldu um allt er varðar persónu-upplýsingar um skjólstæðinga ráðsins. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna lögum samkvæmt og eru rétthærri en þagnarskylduákvæði.

d) Tilkynna skal þeim er vísar máli til nemendaverndaráðs, og eftir atvikum foreldrum, um afgreiðslu þess.

e) Árlega skal skólastjóri gefa yfirlit um starfsemi nemendaverndarráðs skólans eftir skólaárið til sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins um málefni grunnskóla. Þar skal meðal annars koma fram fjöldi funda ráðsins, fjöldi nemendamála sem komu til kasta þess, kynjaskipting mála, aldursdreifing og tegundir mála. Sérfræðiþjónustan útbýr sérstakt form fyrir þá skráningu.



Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is