Grúskdagar í Hraunvallaskóla 2020 ,,Ferðumst innanhúss“

Grúskdagar í Hraunvallaskóla 2020

3.6.2020

Mynd-3_1591201204823Grúskdagar í Hraunvallaskóla 2020 ,,Ferðumst innanhúss“ Opið hús sem hefur mörg undanfarin ár verið uppskeruhátíð þemadaga að vori í Hraunvallaskóla, fór fram með óhefðbundnum en skemmtilegum hætti í morgun. Þar sem ekki var hægt að bjóða foreldrum að skoða afrakstur Grúsksins hjá okkur þetta árið ákváðum við að ,,Ferðast innan húss“ og bjóða árgöngum að skoða hver hjá öðrum. 

Nemendur í 1. -6. bekk settu upp sýningar á sínum heimasvæðum og fengu alla nemendur skólans í heimsókn. 1. bekkur setti upp sýningu um íslensku húsdýrin og var gaman að heyra baul og jarm glymja um svæðið á meðan gengið var um og verkefni nemenda skoðuð. 2. bekkur sýndi afrakstur verkefnisins Hafnarfjörður, bærinn minn. Nemendur þar voru m.a. búnir að útbúa líkan af vitanum, tákni Hafnarfjarðar og gátu frætt gesti um byggðasafnið og fleira spennandi sem þeir höfðu skoðað og kynnt sér í tengslum við verkefnið. 3. bekkur setti upp sýningu um tæknina og gamla tímann. Þar mátti sjá líkön af ýmsum farartækjum, tækninýjungum og híbýlum frá gamla tímanum. 4. bekkur setti upp sýningu um hafið þar sem m.a. mátti sjá stærð hinna ýmsu hvalategunda ásamt myndum af fjölbreyttum fisktegundum sem finnast í landgrunni Íslands. 5. bekkur setti upp sýningu um landnám Íslands. Nemendur settu upp kynningarbása með myndrænu og rafrænu efni sem þeir kynntu fyrir gestum. Meðal þess sem hægt var að skoða voru; skip frá landnámsöld, vopn, híbýli, klæðnaður, rúnir og afþreying. 6. bekkur setti upp ferðaskrifstofur þar sem ferðir til Norðurlandanna voru auglýstar. Skrifstofurnar buðu gjarnan upp á veitingar sem einkenndu löndin, auk þess sem búið var að útbúa bæklinga með upplýsingum um markverða staði eða staðreyndir um löndin. 

Sýningin heppnaðist í alla staði mjög vel og virtust gestirnir mjög ánægðir með heimsóknirnar.

Mynd-1_1591201204950Mynd-4_1591201204852Mynd-12Mynd-8_1591201204903Mynd-5_1591201204868Mynd-10Mynd-9Mynd-7_1591201204777Mynd-2_1591201204590Mynd-11Mynd-6_1591201203579




Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is