Hraunvallaleikar

3.4.2017

Nú eru að byrja hinir árlegu Hraunvallaleikar og hefðbundið skólastarf er brotið upp næstu þrjá daga. Hugmyndin með leikunum er að búa til skemmtilegan viðburð þar sem nemendur og starfsfólk eiga góða daga við leik og skemmtun. Við tökumst á við fjölbreytt verkefni, þrautir og leiki þar sem allir fá að spreyta sig og stórir og smáir hjálpast að.  Íþróttir, sund og valgreinar verða ekki kenndar þessa daga og allir ljúka sínum skóladegi kl. 13:10. Hraunsel starfar eins og venjulega og opnar kl. 13:10

Nemendur eru í 66 hópum og eru tveir hópstjórar úr unglingadeild í hverjum hópi. Hver hópur hefur ákveðið númer sem staðsett er á ákveðnum stað, merkt með fjólubláum lit. Þar hittir hópurinn hópstjórana sína í upphafi hvers dags. 11-13 nemendur eru í  hverjum hópi og er aldursblöndunin frá 1. upp í 10. bekk. Markmiðið með því er að tengja saman nemendur á mismunandi aldri, efla samskipti og góðan skólaanda. Nemendur koma með nesti með sér sem þeir borða þar sem þeir eru staðsettir þegar að nestistíma kemur. Þrjár fastar stöðvar eru í gangi alla þrjá dagana.  Nemendur sem völdu þær stöðvar vinna að ákveðnu verkefni allan tímann og fara ekki á aðrar stöðvar. Nemendur á miðstigi áttu kost á að velja sér leiklistar- eða fjölmiðlastöð. Á unglingastigi var hægt að velja hljómsveitarstöð.

Hafnarfjarðarbær

Á föstudaginn er sveigjanlegur skóladagur. Þá lýkur kennslu kl. 11:10. Sá dagur verður nokkurskonar uppskeruhátíð Hraunvallaleikanna þar sem við komum saman á sal og fáum að sjá afrakstur föstu stöðvanna. Eftir það ætlum við út á Drekavelli þar sem við stefnum að því að búa til risastóran vinadreka. Fremst verða nemendur með Drekahöfuð sem búið verður til á einni stöðinni og á  eftir koma allir nemendur og starfsfólk skólans í halarófu. Við viljum hvetja alla til að koma klæddir í drekalitunum okkar þennan dag, þ.e. rauðu, gulu, gylltu eða appelsínugulu til að drekinn okkar verði sem glæsilegastur.

Við vonumst til að þessi síðasta vika fyrir páskaleyfi verði skemmtileg og spennandi fyrir okkur öll og hlökkum til að takast á við fjölbreytt og skemmtileg verkefni. Kennsla hefst aftur eftir páskaleyfi þriðjudaginn 18. apríl.

Hafnarfjarðarbær


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is