Upplýsingatækni

Haustið 2016 hófst innleiðing á Ipad 1:1 í unglingadeild og haustið 2018 bættist miðdeild við. Markmið innleiðingarinnar er að gera námið áhugaverðara og skemmtilegra fyrir nemendur samhliða sem þeir fá tækifæri til að bera meiri ábyrgð á eigin námi og bæta þannig árangur sinn. Með spjaldtölvuvæðingu færum við námið nær veruleika nemenda og tengjum það við daglegt líf þeirra og opnum á að fá þekkingu frá umheiminum. Við ýtum undir sköpun, áhuga og fjölbreytt nám hjá nemendum. Nemendur geta á auðveldan hátt skilað verkefnum með því að búa til myndbönd, útvarpsþætti, rafræn plaköt, gagnvirkar bækur eða notað sköpunargáfuna og tengt saman listir og tækni. Spjaldtölvuvæðingin býður upp á aukna samvinnu og samstarf á milli nemenda og kennara innan skólans, aukið samstarf á milli skóla innanlands og utan.

Haustið 2019 var stefna tekin á aukna samhæfingu námsgreina og upplýsingatækni. Fyrikomulag kennslu í upplýsingatækni er nú með þeim hætti að nemendur á yngsta stigi fá upplýsingatæknikennslu samkvæmt skólanámskrá sem hluta af list- og verkgreinarúllu. Á mið- og elsta stigi er nú lögð aukin áhersla á að nemendur nýti spjaldið og þá tækni sem skólinn hefur upp á að bjóða á skapandi hátt í vinnu sinni. Í því markmiði eru hæfniviðmið upplýsingatækni fléttuð inn í öll fög með stuðningi og þátttöku tölvudeildar skólans. Í tölvudeild starfa Anna María Proppé deildarstjóri tölvumála og Vilborg Sveinsdóttir deildarstjóri iPadmála. Tölvudeild ásamt upplýsingatækni teymi skólans stendur fyrir reglubundinni fræðslu fyrir kennara og fer fyrir ýmsum verkefnum er lúta að tækni.

Kennarar hafa aðgang að tölvudeild skólans og geta þar fengið ráðgjöf og stuðning við að sníða kennsluefnið þannig að það vekji áhuga nemenda, sé aðgengilegt og að nemendur hafi margar leiðir að sama marki. Skólinn notar Google kennslu umhverfið við kennslu sem gerir allt utanumhald og aðgengi nemenda að kennsluefni og verkefnum einfaldara. Einnig fá nemendur tækifæri að kynnast nýjum búnaði og læra að yfirfæra þekkingu milli Microsoft, Apple og Google.

 


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is