Mat á skólastarfi

Samkvæmt 35. og 36. grein grunnskólalaga frá 2008 ber öllum grunnskólum að framkvæma kerfisbundið sjálfsmat. Tilgangur þess er að kanna hvort markmiðum skólans hefur verið náð, greina sterka og veika þætti í skólastafinu og skapa þannig grunn að umbótum. Margir ólíkir þættir hafa áhrif á skólastarf og skólar verða að koma til móts við ólíkar þarfir. Sjálfsmatið verður stöðugt að vera í gangi og er langtímamarkið. Með því fer fram víðtæk gagnasöfnun um skólastarfið. Sjálfsmat skóla er því leið til þess að miðla þekkingu á skólastarfi og er liður í þróun og vexti skóla. Sjálfsmat, umbætur og mat á þeim eru því lykill að því að bæta skólastarf. 

Samkvæmt grunnskólalögum er það í verkahring sveitastjórna að sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5., 6. og 37. gr., og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Samkvæmt 38. grein grunnskólalaga kemur fram að menntamálaráðuneytið annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 37. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun.

Skólar geta valið hvaða aðferðum þeir beita í sjálfsmatsvinnunni. Ákveðin viðmið sem skólum er ætlað að uppfylla í sjálfsmatsvinnunni eru gefin út á vegum ráðuneytisins svo og leiðbeiningar um sjálfsmat. Til að mat teljist uppfylla viðmið laga þarf það að vera formlegt, altækt, áreiðanlegt, samstarfsmiðað, umbótamiðað, árangursmiðað, stofnana- og einstaklingsmiðað, lýsandi, greinandi og opinbert.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is