Hraunvallaskóli er símalaus skóli frá 1. október

29.9.2023

Frá og með 1. október verður Hraunvallaskóli símalaus skóli. Er þetta skref stigið til að bæta velferð og líðan nemenda en rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli streitu og kvíða og mikillar netnotkunar sem er einna helst í gegnum símann. Sími sem tæki hefur ekkert kennslufræðilegt gildi einn og sér því nemendur skólans hafa aðgang að Ipad og þar með snjalltækninni sem er mikilvæg í nútíma skólastarfi. Við erum því ekki að fara aftur í tímann eða afneita nútímakennsluaðferðum og vinnubrögðum, heldur eingöngu að styrkja námsumhverfi okkar, skapa ró og efla félagsleg samskipti nemenda okkar í raunheimum.

Það er mikilvægt að heimili og skóli verði algjörlega í takt og skuldbundin reglum og verkferlum sem snúa að símalausum skóla. Reglur um símanotkun eru eftirfarandi:

Símareglur Hraunvallaskóla

Hraunvallaskóli er símalaus skóli. Mælst er til þess að nemendur komi ekki með síma í skólann. Eftirfarandi reglur gilda um símanotkun í Hraunvallaskóla:

Nemendur

  • Ef nemandi kemur með símann í skólann skal vera slökkt á honum (hljóðlaus og án titrings) og hann geymdur ofan í tösku eða læstum skáp nemanda.
  • Sími er bannaður á öllum svæðum skólans og gildir það hvort sem um er að ræða kennslustundir, frímínútur, hádegi, vettvangsferðir, skólaferðalög, á leið í og úr íþróttum/sundi, íþróttahús, sundlaug, salerni eða fyrir fyrsta tíma að morgni.
  • Símanotkun nemenda er alltaf á ábyrgð foreldra/forsjáraðila.

Fari nemandi ekki eftir fyrirmælum varðandi símanotkun hefst eftirfarandi ferli:

  • Nemandi fær skráningu í dagbók í Mentor – “(númer) Brot á símareglu”.
  • Þegar nemandi er kominn með 3 skráningar Brot á símareglum“ í Mentor er haft samband heim og fundin lausn með foreldrum/forsjáraðilum.
  • Ef ekki næst árangur og nemandi virðir áfram ekki símareglur (samtals 5 skráningar) er boðað til fundar með foreldrum/forsjáraðilum og gerð áætlun til úrbóta sem gæti verið eftirfarandi:
    • Samningur við nemanda, forréttindamissir o.þ.h.
    • Foreldrar/forsjáraðilar sæki símann í skólann.
    • Nemandi komi ekki með símann í skólann í ákv. tíma sem væri á ábyrgð foreldra/forsjáraðila.
    • Nemandi geymi símann á skrifstofu skólans á skólatíma á ákv. tímabili.
    • Annað.

Starfsmenn

  • Starfsmenn eru fyrirmyndir nemenda og fylgja símareglum skólans.
  • Persónuleg símanotkun er óheimil á fundum, í kennslustundum og við gæslu eða önnur störf starfsmanns nema í neyðartilvikum eða vegna starfstengdra erinda.

Foreldrar/forsjáraðilar og gestir

  • Þar sem Hraunvallaskóli er símalaus skóli förum við þess á leit við forsjáraðila/gesti að þeir hafi ekki síma uppi við í húsnæði skólans.

Við óskum eftir góðu samstarfi við ykkur kæru foreldrar/forsjáraðilar í þessu máli og biðjum ykkur um að ræða símareglur skólans við ykkar barn.

Með virðingu og vinsemd,

Lars Jóhann Imsland, skólastjóri Hraunvallaskóla 


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is