Hæfileikakeppni miðdeildar

21.5.2015

Hin árlega hæfileikakeppni miðdeildar var haldin á sal skólans í morgun. Að venju voru fjölmörg frábær atriði á dagskrá og voru dómararnir sannarlega ekki öfundsverðir af hlutverki sínu. Keppnin í morgun staðfesti það sem við sem störfum hér höfum alltaf vitað; Hraunvallaskóli er stútfullur af hæfileikaríkum krökkum. Öllum nemendum sem tóku þátt er kærlega þakkað fyrir sitt framlag í keppnina. 

Alls voru 20 atriði í keppninni í ár, en eingöngu nemendur í 5., 6. og 7. bekk taka þátt. Nemendum í 4. bekk er þó alltaf boðið að koma að horfa og því var þétt setið í salnum í þær 90 mínútur sem keppnin stóð yfir. Kynnir keppninnar var Bjarni Gunnar Eiðsson í 7. bekk og fær hann stórt hrós fyrir frábæra frammistöðu og röggsama stjórnun. Það er spá þess sem þetta ritar að Auðunn Blöndal fái brátt að víkja sem kynnir Ísland Got Talent og Bjarni Gunnar taki við.

Dómnefndina í ár skipuðu Lars Jóhann Imsland skólastjóri, Sara Pálmadóttir forstöðukona Hraunsels og Vilborg Sverrisdóttir danskennari við skólann. Þegar kom að því að kynna úrslitin var ljóst að um tímamót í sögu keppninnar var að ræða. Dómnefndin gat nefnilega ekki gert upp á milli tveggja atriða þegar kom að því að velja frumlegasta atriðið. Úr varð að Jóel Arnarson úr 5. bekk og danshópurinn Gardínur í sokkabuxum, skipuð drengjum úr 6. bekk, deildu með sér verðlaunasætinu. Sannarlega frábær atriði bæði tvö.

Í þriðja sæti var svo stúlknadanshópur úr 6. bekk og í öðru sæti þær Birgitta Sveinsdóttir og Lilja Rut Valgarðsdóttir, en þær sungu og spiluðu á píanó. Í fyrsta sæti voru svo þrjár stúlkur úr 7. bekk, þær Helena og Hildur Clausen og Saga Rún Vilhjálmsdóttir. Þær sungu lagið Don´t Stop Believing með miklum tilþrifum sem hljómsveitin Journey gerði vinsælt 21 ári áður en þessar hæfileikaríku stúlkur fæddust.
Hafnarfjarðarbær
Hér má sjá stúlknadanshópinn úr 6. bekk sem endaði í þriðja sæti og danshópinn Gardínur í sokkabuxum og Jóel Arnarson sem deildu með sér verðlaunum fyrir frumlegasta atriðið.

HafnarfjarðarbærBirgitta Sveinsdóttir og Lilja Rut Valgarðsdóttir spiluðu á píanó og sungu. Þær stóðu sig frábærlega og enduðu í 2. sæti keppninnar.

HafnarfjarðarbærHelena Clausen, Saga Rún Vilhjálmsdóttir og Hildur Clausen sungu með tilþrifum og fengu salinn með sér í svaka stuð. Þær enduðu í 1. sæti keppninnar.

Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is