Lestur er lífsins leikur

2.10.2015

Kæru foreldrar og forráðamenn.

Þjóðarátaki í læsi hefur verið hleypt af stokkunum og hafnfirsk skólayfirvöld skrifuðu undir þjóðarsáttmála um læsi við hátíðlega athöfn nú á dögunum. Unnið hefur verið að sameiginlegri áætlun um bættan árangur hafnfirskra skólabarna í lestri á síðustu misserum með aðkomu fulltrúa frá öllum leik- og grunnskólum í bæjarfélaginu. Við í Hraunvallaskóla erum virkir þátttakendur í þessu verkefni og ætlum að leggja aukna áherslu á þennan þátt skólastarfsins næstu misserin.

Á samtalsdegi fengu öll heimili afhentan bæklinginn
Lestur er lífsins leikur. Hann inniheldur ítarlegar upplýsingar um hvaða próf og kannanir verða lögð fyrir í öllum grunn- og leikskólum Hafnarfjarðar og hvaða viðmið eru sett um viðbrögð.  Við í Hraunvallaskóla höfum lagað okkar starf að þessum áherslum og hlökkum til að takast á við þetta krefjandi og mikilvæga verkefni í samstarfi við ykkur. Sameiginlegt markmið okkar allra er að nemendur geti lesið sér til gagns og ánægju við lok grunnskólanáms.

Lestrarhæfni er samfélagslegt verkefni og þurfum við því öll að taka höndum saman. Samstarf við ykkur foreldra er okkur afar mikilvægt og í raun forsendan fyrir því að markmiðið náist. Okkar hlutverk er að kenna, þjálfa, hvetja og veita ráðgjöf bæði til nemenda okkar og ykkar sem að þeim standið. Hlutverk ykkar er að hvetja börnin til lesturs og sjá til þess að þau lesi daglega heima, hvort sem það er í skólabókum eða öðru lesefni sem þau hafa valið sér. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Lesfimi þarf að þjálfa
  • Lestur eykur orðaforða
  • Orðaforði eykur lesskilning
  • Lesskilningur er lykill að öllu námi

Við, fullorðna fólkið, erum fyrirmyndir. Sýnum stuðning og áhuga í verki með því að lesa með börnunum eða fyrir þau og tala jákvætt um verkefnið.

Gerum þetta saman  -  stefnum hátt  -  þannig náum við árangri.
Með bestu kveðju, starfsfólk Hraunvallaskóla

 


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is