Orðaþrenna

14.4.2016

Orðaþrenna vikunnar er nýtt verkefni í skólanum og er tilgangur þess að auðga orðaforða nemenda og efla lesskilning. Þrjú orð eru tekin fyrir vikulega og taka kennarar og starfsmenn skólans þátt í að nota þessi orð sumir munnlega og aðrir skriflega.  Að viku liðinni eru ný orð valin og svo koll af kolli. Orðin eiga það sameiginlegt að að heyrast ekki oft í daglegu tali en eru  algeng í lesmáli og einkenna tal þroskaðra málnotenda.

Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að taka þátt í verkefninu með okkur en góður orðaforði er lykillinn að lesskilningi og farsælu námsgengi.

Sum orðin hafa margræða merkingu og geta skapað skemmtilegar umræður og stemningu.

Orðaþrenna vikunnar 18.-24. apríl er: Síðdegi, hnugginn og dýrindis-

Síðdegi (tímabilið á milli kl. 13:00 og 18:00).

            Sólarhringur skiptist í:

  • nótt (kl. 0-5)
  • morgun (kl. 5-12)
  • hádegi (kl.12-13)
  • eftirmiðdag eða síðdegi (kl.13-18)
  • kvöld (kl. 18-24)

Hnugginn (Sorgbitinn, dapur).

Dýrindis- (Forliður samsetninga um dýrmæta hluti > dýrindisbók, dýrindiskápa). Önnur þekkt orð eru: dýrindisveður, dýrindisveisla, dýrindisdjásn, dýrindisdrykkur, dýrindislifnaður o.fl.

Dæmi um notkun:

Foreldra geta til dæmis:

  • Sent SMS:

Ég hringi í þig síðdegis og við ákveðum hvaða dýrindismat við eldum í kvöld.

Kveðja pabbi .

Skrifað skilaboð á kæliskápinn:

Ekki vera hnugginn yfir veðrinu því það er dýrindisveðri spáð umhelgina.

Kveðja mamma .“

 Jafnvel stungið miða í nestisboxið:

            Dýrindisdrykkur og ávextir í nesti. Verði þér að góðu :)


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is