Förum varlega í haust

14.10.2022

Við minnum á að nú fer í hönd dimmasti tími ársins. Tökum höndum saman og ökum varlega í kringum skólann. Gætum að börnunum okkar og skreytum börnin okkar og okkur sjálf með endurskinsmerkjum svo allir séu sýnilegir í umferðinni. Gott er að huga að aðstæðum, með tilliti til veðurs og hálku, áður en lagt er af stað á hjóli/hlaupahjóli í skólann. Þá er líka áríðandi að læsa hjólum/hlaupahjólum við skólann.

Nauðsynlegt er að foreldrar/forráðamenn finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann, hvetji þau til að nota gangbrautir/undirgöng og bendi þeim á slysagildrur sem ber að varast. Þegar börn eru keyrð í skóla er mjög mikilvægt að þau fari út úr bílnum þar sem þau eru örugg. Við stofnum lífi okkar barna og annarra í hættu með því að sleppa þeim út við gangstéttarbrún. Það er líka mikilvægt að muna að barn sem er að hefja skólagöngu er ekki orðið nógu hávaxið til að sitja eingöngu með bílbelti og því er nauðsynlegt að nota bílpúða eða bílpúða með baki.

Hér eru 10 örugg ráð til foreldra frá Umferðarstofu:

  1. Æfum leiðina í og úr skóla með barninu
  2. Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
  3. Leggjum tímanlega af stað, flýtum okkur ekki
  4. Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir
  5. Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
  6. Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
  7. Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
  8. Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir
  9. Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
  10. Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu. Höfum í huga að við erum fyrirmyndir barnsins.

Hvernig hegðum við okkur í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem við gerum en því sem við segjum. Munum því að ganga aldrei á móti rauðu ljósi og nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki.

Endurskinsmerki_1665740238830


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is