Vegna Covid-19 frétta helgarinnar

19.4.2021

Því miður eru fréttir af covid smitum undanfarna daga alls ekki góðar. Það sýnir okkur enn og aftur að við megum ekki láta deigan síga og að þessari baráttu er ekki lokið hjá okkur. Það er því ENN MEIRI ástæða til að skerpa á sóttvörnunum og brýna allar aðgerðir okkar. Við þurfum að gera allt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir smit í skólanum okkar og koma í veg fyrir að stór hópur þurfi að fara í sóttkví. Við viljum því ítreka einstaklingsbundnar sóttvarnir með handþvotti, spritti og 2 metra reglunni. Við viljum einnig minna á að foreldrar/forsjáraðilar eru vinsamlegast beðnir um að koma ekki inn í skólabygginguna nema brýna nauðsyn beri til.

Í framhaldi af þessu minnum við á viðmið um hvenær grunnskólanemendur og starfsfólk eiga EKKI að mæta í skólann.
Nemendur/starfsfólk eiga EKKI að mæta í skólann ef þau:
- Eru í sóttkví, einangrun eða bíða niðurstöðu sýnatöku.
- Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
- Eru með flensueinkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.). Miðað er við að skólabörn og starfsfólk skuli vera hitalaust a.m.k. einn sólarhring áður en þau snúa aftur í skólann ef veikindi stafa af öðru en COVID-19.

Okkur langar að brýna fyrir fólki að fara í Covid-19 sýnatöku við minnstu einkenni og mælum við með að farið sé í sýnatöku áður en komið er til baka í skólann.

Þetta eru allt þættir sem við kunnum en nauðsynlegt að minna á. Vonandi er þetta ekki einkennandi um það sem koma skal en það kemur í ljós á næstu dögum.
Þangað til förum sérstaklega varlega og stöndum vörð um skólann okkar.

Baráttukveðjur og við munum sigra þetta saman.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is