Tæknidagar

21.10.2020

Í október voru skipulagðir tæknidagar í öllum deildum Hraunvallaskóla. Markmiðið var að allir árgangar fengju tækifæri til að vinna spennandi verkefni tengd tækni og kynna sér eitthvað nýtt og spennandi í þeim efnum undir leiðsögn kennara sinna. Miðdeild reið á vaðið vikuna 5.-9. október, yngri deild kom í kjölfarið 12.-16. október og unglingadeild þessa síðustu viku fyrir vetrarfrí. 

Í yngri og miðdeild voru settar upp stöðvar með fjölbreyttum tækniverkefnum sem tengdust mörgum námsgreinum auk þess að þjálfa samvinnu og tækniþekkingu. 

Í yngri deild var m.a. unnið með forritun og þrívídd. Nemendur unnu með tæknilego þar sem hægt var að byggja róbota og forrita þá til að gera ákveðna hluti. Margir fengu að prufa Blue Bot mýs sem hægt er að forrita, Osmo var mikið notað, en það eru leikir sem þjálfa stærðfræði, fínhreyfingar, teikningu, lausnaleit, rýmisgreind, forritun, mál o.fl. gegnum leik. Nemendur skoðuðu þrívíddar bækur þar sem smáforrit eru notuð til að skoða skordýr, himingeiminn og fleira í þvívídd. Í 1.bekk sló smáforritið quivervision í gegn en þar lifna við myndir sem krakkarnir hafa litað sjálfir. 

Í miðdeild var líka mikið unnið með forritun t.d. með Dash og Dot sem eru róbotar sem nemendur geta forritað og Ozobot þar sem unnið er með forritun lausnaleit og samvinnu. Margir fengu að skoða Virtual tee en það er stuttermabolur með kóða þrykktan á. Einn fer í bolinn en hinir nota ipadinn til að skoða inn í líkamann í þrívídd. Hægt er að skoða helstu líffæri, beinagrind og vöðva. Einnig var unnið með VR gleraugu en með þeim er hægt að fara í ferðalög í sýndarveruleika t.d. á söfn eða fræga staði og skoða sig um. Osmo kom við sögu ásamt fjölbreyttum smáforritum í stöðvavinnunni. 

 Í unglingadeild var ýmiskonar tækni tengd mismunandi námsgreinum og unnið m.a. með Break Out og Stop Motion í ensku, OSMO í dönsku, IMOVIE, Educreation og Clips í stærðfræði og Kahoot tengt skoðun á náttúrunni í smásjá í náttúrufræði. 

 Dagarnir voru vel heppnaðir í alla staði og gott innlegg til að styrkja markmiðið okkar um fjölbreytta námsmöguleika og kennsluhætti.


Hraunvallaskóli | Drekavellir 9, 221 Hafnarfjörður
Sími 590-2800 | Netfang hraunvallaskoli@hraunvallaskoli.is